Skálholtshátíð hefur staðið yfir alla helgina með mikilli dagskrá. Í dag, sunnudag vígir frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sr. Kristján Björnsson, fyrrum sóknarprest í Landakirkju og nýkjörinn vígslubiskup í Skálholti og setur hann í embætti við messu í Skálholtsdómkirkju. Messan hefst kl. 13.30.

Sr. Kristján Björnsson

Prestar og biskupar ganga hempuklæddir og skrýddir úr skóla til kirkju með öðrum vígsluvottum og gestum og pílagrímar ljúka göngu sinni úr Strandarkirkju og ofan úr Borgarfirði með þessari kirkjugöngu. Eftir vígslumessuna, sem er opin öllum, býður biskup Íslands til kaffiveitinga í Skálholtsskóla.

Skálholtshátíð er haldin þessa helgi vegna Þorláksmessu á sumar en hún var á föstudaginn.

Nýkjörinn Skálholtsbiskup hefur óskað eftir því að þau sem vilja samgleðjast á þessari hátíð með gjöfum og framlögum leggi allar gjafir í Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju sem er með kt. 451016-1210 og banka 0152-15-380808 eða í Þorlákssjóð sem er með kt. 610172-0169 og banka 0151-05-060468. Verndarsjóðurinn kostar umfangsmiklar og kostnaðarsamar viðgerðir á gluggum Gerðar Helgadóttur sem standa núna yfir og Þorklákssjóði er ætlað að styðja við endurnýjun á skrúða og áhöldum dómkirkjunnar.