Þriðji dagurinn á Íslandsmeistaramótinu í golfi fór fram í dag og var hann heldur betur merkilegur fyrir Golfklúbb Vestmannaeyja, en tvö af þremur bestu skorum dagsins koma frá kylfingum klúbbsins.

Daníel Ingi Sigurjónsson gerði sér lítið fyrir og lék völlinn á 63 höggum sem er jafnt gamla vallarmetinu sem slegið var í gær af Haraldi Franklín Magnúsi en hann lék á 62 höggum. Daníel átti um 5 metra pútt á 18. flöt til að jafna vallarmet Haraldar en krækti því og niðurstaðan því 63 högg. Kristófer Tjörvi átti frábæran hring og kom inn á þriðja besta skori dagsins eða 66 höggum.