Slippurinn var fullur af fólki þegar tónleikar Sunnu voru á fimmtudaginn

Sunna Guðlaugsdóttir er flestum Eyjamönnum góðu kunn, hún hefur sungið sig inní hjörtu eyjamanna á síðustu árum. Sunna vinnur nú að því að gefa út sína fyrstu plötu og ætlar að fara aðeins öðruvísi leið til þess að láta þann draum sinn rætast. Á fimmtudaginn spilaði Sunna á Slippnum ásamt dönskum og íslenskum félögum sínum. Hún söng bæði eigin lög og annarra. Lögin á plötunni verða öll frumsamin og fengu tónleikagestir að heyra sum þeirra á fimmtudaginn. Sunna er með skilaboð í lögunum sínum og eru henni kvennréttindi og staða flóttamanna hugleikinn. Sunna er með frábæra og hugljúfa rödd og er nokkuð ljóst eftir þessa tónleika að platan þarf að komast út.

Sunna ætlar að crowdfunda plötuna sína, en það virkar þannig að hún biður fólk um að kaupa plötuna af sér fyrirfram til þess að geta fjármagnað verkefnið. „Það er svolítið svoleiðis að þegar maður tekur ákvörðunina um að láta þetta gerast núna, að gefa út plötu, þá er erfitt að vera þolinmóður og safna. Það er mjög dýrt að taka upp tónlist, en mig vantar að eiga góðar upptökur af tónlistinni minni til að reyna að komast að á spilastöðum, festivölum og til að fá spilun í útvarpi. Þess vegna ætla ég að biðja fólkið í kringum mig að sýna mér það ótrúlega traust að kaupa plötuna fyrirfram. Þannig get ég safnað fyrir upptökunum, svo fær fólk plötuna senda þegar hún er tilbúin. Það er einnig möguleiki að styrkja verkefnið með því að kaupa annað en plötuna, t.d. verða til sölu miðar á útgáfutónleika, bæði í Danmörku og Íslandi, vínyl útgáfa af plötunni og einnig er hægt að kaupa sér sérstakar þakkir á plötuhulstrinu og fólk getur keypt tónleika heim í stofu. Þetta kallast no-risk project, það er að ef mér tekst ekki að safna öllum peningnum, þá dettur verkefnið upp fyrir sig og fólk fær endurgreitt,“ sagði Sunna.Fólk getur ekki tapað peningum á að styðja við verkefnið, „hins vegar er mjög mikið í húfi fyrir mig, því ef ég safna ekki allri upphæðinni þá fæ ég ekki neitt og þarf að byrja upp á nýtt. Það er rosaleg vinna í kringum þetta og sérstaklega á meðan á söfnuninni stendur, en það eru forréttindi að fá að sinna því sem maður elskar þannig ég hlakka rosalega til, en er líka passlega stressuð,“ sagði Sunna. Hægt er að kaupa plötuna hennar Sunnu fyrirfram hérna.