Ráðning skipstjóra og yfirvélstjóra
Í gær var gengið frá ráðningum í stöður skipstjóra á nýjum Herjólfi. Ráðnir voru tveir skipstjórar til viðbótar við þann sem áður hafði verið ráðinn.
Capacent sá um ráðningarferli skipstjóra fyrir Herjólf ohf. Fjórir umsækjendur voru metnir hæfastir til starfsins. Í kjölfarniðurstöðu Capacent var Ívar Torfason ráðinn fyrstur sem skipstjóri. Eftir ráðningu Ívars dró einn þeirra fjögurra sem metnir voru hæfastir umsókn sína til baka. Eftir stóðu þá tveir umsækjendur sem báðir fengu mjög gott hæfnismat og meðmæli. Stjórnin ákvað því að ganga til viðræðna við þá sem lauk með samkomulagi um ráðningu.
Þeir tveir sem ráðnir voru í gær eru:
Gísli Valur Gíslason, skipstjóri á Herjólfi, og Sigmar Logi Hinriksson, fyrrv. skipstjóri á Baldri.
Með þessum ráðningum er lokið við að ráða í þær þrjár stöður skipstjóra sem gert er ráð fyrir að ráða í.
Í gær var enn fremur gengið frá ráðningu eins af þremur yfirvélstjórum sem til stendur að ráða á skipið. Capacent sá um ráðningarferli yfirvélstjóra og sóttu nokkrir um starfið. Viðræður hafa staðið yfir við tvo af þeim sem hæfastir voru metnir og hefur náðst samkomulag við annan þeirra um ráðningu.
Sá yfirvélstjóri sem ráðinn var í gær er Svanur Gunnsteinsson. Áfram verður haldið viðræðum við aðra sem sóttu um og vonar stjórnin að þær viðræður leiði fljótlega til jákvæðrar niðurstöðu þannig að ljúka megi ráðningum yfirvélstjóra sem allra fyrst.

Aðrar stöður hjá Herjólfi ohf. hafa verið auglýstar lausar til umsóknar og rennur umsóknarfrestur út í þessum mánuði.

Stjórn Herjólfs ohf.