Samgöngumál gerð að pólitísku bitbeini

Helga Kristín Kolbeins skrifar

Helga Kristín Kolbeins

Í framhaldi af bæjaráðsfundi í vikunni birti Hildur Sólveig Sigurðadóttir grein þar sem lýst er hvernig minnihlutanum er haldið utan við umræður um eitt af okkar helstu hagsmunamálum sem eru samgöngumál. Njáll Ragnarsson birti í kjölfarið grein þar sem hann gerir lítið úr áhyggjum hennar af lýðræðishalla og sakar Sjálfstæðismenn um sleggjudóma í sömu andrá og hann sakar Hildi Sólveigu og bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ósannindi. Slíkur málflutningur getur ekki fengið að líðast án svara.

Bæjarfulltrúar minnihlutans heyrðu af fyrirætlunum um breytingu á stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. en gerðu að sjálfsögðu ráð fyrir að slíkar breytingar yrðu til opinberrar umræðu á fundi bæjarstjórnar eins og eðlilegt myndi teljast. Á síðasta bæjarstjórnarfundi var umræða um samgöngumál án þess að minnst væri einu orði á nauðsyn þess að skipta þyrfti um stjórn félagsins eða að lagt væri fram vantraust á hana. Þar fór fram umræða um nauðsyn öflugra upplýsingaflæðis um stöðu verkefnisins og fyrirætlanir meirihlutans um skipan starfshóps um samgöngur á vegum samgönguráðuneytisins. Þar kom einnig fram að fulltrúar meirihlutans væru búnir að eiga fundi með samgönguráðherra án vitneskju minnihlutans.

Meirihlutinn fer með félagið eins og sitt eigið einkahlutafélag

Bæjarráð hefur farið með samgöngumál til margra ára og er ásamt fundum bæjarstjórnar réttur vettvangur til að fjalla um hvort þörf sé á að boða til hluthafafundar í félaginu og eftir atvikum að skipta um stjórn. Nú hafa hinsvegar H- og E- listi ákveðið einhliða, án aðkomu bæjarráðs eða bæjarstjórnar, að skipta um stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. og bera fyrir sig að það sé lýðræðisleg ákvörðun þar sem búið var að tilkynna einum bæjarfulltrúa um að þær fyrirætlanir stæðu til óformlega án nokkurra frekari upplýsinga. En þar sem sú ákvörðun fékk hvorki umfjöllun í bæjarráði né bæjarstjórn fara fulltrúar H- og E- lista nú með félagið eins og sitt eigið einkahlutafélag.

Opinber hlutafélög á vegum ríkisins skipta um stjórnir á aðalfundum þeirra eins og vönduð stjórnsýsla kveður á um en ekki með flýtiboðun hluthafafunda strax að afloknum kosningum

Að sjálfsögðu er hægt að skipta um stjórn í félaginu eins og í öllum öðrum hlutafélögum. Á bæjarráðsfundi benti Trausti Hjaltason réttilega á að í samþykktum hlutafélagsins segir að kosið sé í stjórn á aðalfundi. Hjá öðrum opinberum hlutafélögum líkt og þeim sem meirihlutinn nefnir í bókun sinni á síðasta bæjarráðsfundi , RÚV ohf. og ÍSAVÍA ohf. er kosið í stjórnir á aðalfundum þeirra og oft breytast stjórnir sem kosnar eru á næsta aðalfundi sem haldinn er að afloknum kosningum þegar að stjórnarflokkar kjósa inn sína fulltrúa. Það er hins vegar fjarri sannleikanum líkt og bæjarráðsfulltrúar H- og E- lista bóka um að boðað sé til hluthafafundar strax að afloknum kosningum til að skipta um stjórnir opinberra hlutafélaga: Það er hinsvegar gert á næsta aðalfundi félaganna. Þannig er aðalfundur RÚV ohf haldinn í apríl ár hvert og þá er kosinn stjórn sem tilnefnd er af Alþingi, en þingkosningar eru yfirleitt í maí. Þannig að hjá RÚV ohf er aðalfundur og þar með stjórnarkjör nýbúið þegar ný stjórn tekur við að loknum þingkosningum. Hjá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf á að halda aðalfund fyrir fyrir lok maí hvers árs og þar er fastur líður á dagskrá sem heitir stjórnarkjör eins og hjá öðrum opinberum hlutafélögum. Á aðalfundi hjá opinberu hlutafélagi sveitarfélagsins eru boðaðir auk stjórnar og endurskoðanda félagsins, kjörnir bæjarfulltrúar og fulltrúar fjölmiðla, aðalfundur er því fjölmennari og opnari en hluthafafundurinn sem búið er að boða. Á hluthafafundinum sem verður í byrjun ágúst verða einungis stjórnarmenn, endurskoðandi félagsins ásamt bæjarstjóra. Samgöngumál, ný ferja og sú staðreynd að við höfum fengið forræði yfir rekstur hennar skiptir okkur öll miklu máli og hafa stórir sigrar unnist á þeim vettvangi einmitt með samstöðu og upplýstri umræðu. Það að gera jafn mikilvægt málefni að pólitísku bitbeini með þeirri aðferðfræði sem hér er gengið fram með er málaflokknum ekki til framdráttar, svo mikið er víst.

Upplýst og lýðræðisleg umræða þarf að fara fram vilji bæjarstjórn tryggja vandaða stjórnsýslu

Bæjarfulltrúar minnihlutans vilja að bæjarbúar allir fái að fylgjast vel með framvindu málsins enda er slíkt nauðsynlegt til að koma í veg fyrir rangfærslur og rógburð og til að byggja upp nauðsynlegt traust og tiltrú bæjarbúa á verkefninu. Bæjarfulltrúar allir sama hvar í flokki þeir eru og íbúar sveitarfélagsins eiga rétt á upplýstri umræðu og að á rödd þeirra sé hlustað, ekki bara fyrir kosningar. Að kasta fram greinum sem reyna gera lítið úr fólki er vinnur sína vinnu af einurð og heiðarleika og nota úlfur í því samhengi kemur úr hörðustu átt. Því ekkert er verra fyrir lýðræðið en úlfar í sauðagæru er lofa íbúalýðræði, opinni og gegnsærri umræðu og ákvarðanatöku fyrir kosningar, en sýna sitt rétta gervi að þeim loknum. Umræður verða að vera opnar og fyrst og fremst verður lýðræðisleg umræða að fá að fara fram. Það er slæmt þegar upplýsingum og ákvörðunum sem skipta okkur öll máli er haldið frá okkur.

Helga Kristín Kolbeins