Krónan auglýsir þessa dagana eftir styrktarumsóknum frá Vestmannaeyjum. „Við höfum áhuga á að taka þátt í uppbyggingu í samfélaginu og auglýsum eftir styrktarumsóknum,” segir í auglýsingunni.

Um er að ræða samfélagsstyrki sem styðja samfélagið t.d. á sviði íþrótta/hreyfingar, menningar og lista eða menntunar. Krónan hefur hingað til veitt styrkinn mánaðarlega og verið bundið barna- og unglingastarfi en breyting er að verða þar á.

„Við fáum ótalmargar beiðnir um alls konar styrki í hverjum mánuði og oft erfitt að velja úr. Hingað til höfum við ráðstafað styrkjum einu sinni í mánuði og höfum við verið dugleg að styrkja barna- og unglingastarf íþróttafélaga landsins. Nú langar okkur að tengjast nærsamfélögum verslana Krónunnar betur og leyfa íbúum sjálfum að hafa áhrif á það hvernig Krónan getur styrkt spennandi verkefni í viðkomandi bæjarfélagi. Við erum því núna að auglýsa eftir samfélagsstyrkjum og geta þeir tengst öllu því sem er í gangi í viðkomandi bæjarfélagi, hvort sem tengist menningu, listum, íþróttum eða öðru. Við munum ráðstafa þessum samfélagsstyrkjum einu sinni á ári og geta verkefnin því verið mjög fjölbreytt á milli ára. Fer allt eftir því hvað er í gangi í hverju bæjarfélagi það árið.”
Sagði Karen Rúnarsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar í samtali við Eyjafréttir.

Það er því um að gera fyrir þá standa að verkefni eða hafa hugmynd sem styður við samfélagið að fara inn á kronan.is/styrktarumsokn og sækja um.  Öllum umsóknum verður svarað og tilkynnt verður hvaða verkefni fær styrk í ár.

Umsóknarfrestur er til 7. september 2018 og er eingöngu hægt að sækja um rafrænt og verður styrktarumsóknum einungis svarað í gegnum heimasíðuna.

Frábært framtak hjá Krónunni.