Komdu í heimsókn!

Hrefna Óskarsdóttir skrifar

Hrefna Óskarsdóttir, iðjuþjálfi á Hraunbúðum

Það er tvennt sem við getum stólað á í lífinu; annað hvort verðum við gömul eða deyjum áður. Það að tilheyra er ein stærsta þörf manneskjunar og minnkar ekkert með aldrinum þó færni skerðist.

Hjúkrunar- og dvalarheimili reyna eftir bestu getu að mæta þessari þörf og eru sífellt að efla tækifæri til félagsstarfa. En dýrmætustu og mikilvægustu samverustundirnar er engu að síður heimsóknir ættingja og vina. Því miður fer það stundum svo að heimsóknum fækkar eftir því sem veikindin verða meiri – sérstaklega ef um heilabilun er að ræða. Þörfin fyrir nánd og samveru minnkar þó ekkert.

Það er ósköp skiljanlegt. Einstaklingar breytast stundum þegar þeir fá heilabilun. Það getur verið erfitt að halda uppi samræðum, þeir gætu átt í erfiðleikum með að skilja þig eða þú veist kannski ekki alveg hvað þú ættir að segja. Eða jafnvel hvað þú ættir ekki að segja. Maður þarf stundum að endurtaka sig. Jafnvel oft. Einstaklingar með heilabilun geta verið pirraðir, kvíðnir og óttaslegnir og gætu jafnvel átt í erfiðleikum með að þekkja þig. Þeir hegða sér kannski öðruvísi en venjulega og þér gæti jafnvel fundist þeir vera skrítnir.
Þó minningar og rökhugsun séu kannski á undanhaldi eru tilfinningar þeirra enn til staðar. Heimsókn frá þér getur gefið þeim mikla vellíðan og stuðlað að auknum lífsgæðum og lífsgleði og verið þeim ómetanleg gjöf.

Húsasmiðjan – almenn auglýsing

Ef þú ert eitthvað óöruggur með að kíkja í heimsókn, þá eru nokkrir hlutir sem gætu einfaldað þér heimsóknina:

• Kynntu þig og útskýrðu hver þú ert – ef þarf
• Brostu og haltu augnsambandi
• Sittu í sömu hæð og viðkomandi
• Snertu höndina á einstklingnum ef það er viðeigandi
• Hlustaðu og gefðu viðkomandi tíma til að ná í svör eða athugasemdir
• Vertu jákvæð/ur og styðjandi
• Sýndu þolinmæði, og
• Forðastu spurningar sem fela í sér val – ef það er mögulegt. Spurðu t.d. viltu kaffi? í staðinn fyrir hvort viltu te eða kaffi?
• Forðastu spurningar um hvað viðkomandi var að gera í dag eða í gær. Ræddu frekar um gamla skemmtilega tíma og atburði

En ef vandamálið er að þú veist ekki hvað þú átt af þér að gera þegar þú kemur í heimsókn langar mig að hughreysta þig með að það þarf ekki að vera flókið – bara að þú komir gerir kraftaverk! En ég læt samt sem áður nokkrar hugmyndir flakka – það sem hefur reynst öðrum vel:
• Taktu með þér tímarit, blöð eða bæklinga með þér til að skoða.
• Spilaðu við viðkomandi – t.d. olsen olsen, veiðimann, domínó, lúdó eða skoðaðu leiki með viðkomandi sem við erum í ipadnum.
• Hlustaðu á tónlist með viðkomandi. Allir eiga sína uppáhaldstónlist og elska flestir að hlusta á tónlist sem minnir þau á gamla tíma.
• Horfðu á youtube myndbönd af einhverju sem þú veist að viðkom- andi hefur eða hafði gaman af.
• Rifjaðu upp minningar með viðkomandi um atburði, fólk eða staði.
• Skoðaðu ljósmyndir eða myndskreyttar bækur.
• Lestu upphátt, grein eða smásögu eða framhaldssögu.
• Brostu og finndu leiðir til að hlægja saman.

Hafðu bara í huga að það er yfirleitt mjög auðvelt að ná til fólks með heilabilun og það þarf ekki mikið til – t.d. bara að halda í höndina á þeim eða sitja hjá þeim. Jafnvel manneskja sem er langt gengin með Alzheimer‘s bregst vel við umhyggju og vinahótum – rétt eins og ég og þú.

Þú þarft heldur ekki að stoppa lengi í heimsókn. Gleðin og vellíðan yfir heimsókninni byggist ekki á tímalengdinni. Ef satt skal segja þá gætu þau jafnvel gleymt því nokkuð fljótlega að þú hafir yfirhöfuð komið. Málið er að hlýjan, ánægjan og vellíðanin yfir umhyggjunni þinni situr eftir með þeim. Með því að koma í heimsókn þá dregur þú úr einmanaleika og félagslegri einangrun. Það er gjöfin sem nærvera þín veitir.

Alþýðuhúsið: Mugison
Alþýðuhúsið: Salka og Sólkerfið