Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Ég hef áhyggjur af þeim misskilningi sem bæjarstjóri virðist leggja í stofnun Herjólfs ohf. þegar hún segir í grein sinni ,,Var það ekki Trausti sjálfur sem var með í að ákveða að þetta væru einmitt alls ekki verkefni bæjarstjórans? Var hann ekki einmitt með í að stofna heilt félag, kjósa því stjórn sem ráða á framkvæmdastjóra til að sjá um þetta?”  Herjólfur ohf. er einfaldlega hlutafélag um rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og er tilgangur þess mjög einfaldur, að reka ferjuna á forsendum samnings sem liggur fyrir við samgönguráðuneytið og Vegagerðina en ekki að vera baráttuafl fyrir hönd Vestmannaeyja í samgöngumálum. Það firrar á engan hátt bæjarstjóra, sem heldur á eina hlutabréfinu í félaginu eins og áður hefur komið fram, frá þeirri ábyrgð og skyldum að veita kröftuga forystu í okkar baráttumálum í samgöngum á borð við að bæta aðstæður í Landeyjahöfn, að rekstur ferjunnar verði með þeim hætti sem samið var um, að tryggja nægt fjármagn og að ljá málefnum stjórnar Herjólfs ofh rödd, rödd sem þekkir og hefur trú á þessu mikilvæga verkefni sem er fyrir höndum. Í þessum málum skiptir forysta bæjarstjóra öllu eins og dæmin hafa sýnt i gegnum tíðina, m.a. þegar Elliði Vignisson barðist fyrir skjöldu til að farþegaferjan Akranes fengi siglingaskírteini á leið sinni milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja fyrir rúmu ári síðan. Þrátt fyrir að stjórn Herjólfs sinni veigamiklu hlutverki í framtíð bættra samgangna til Eyja þá léttir það á engan hátt ábyrgð bæjarstjóra um að veita samgöngumálum forystu.

 

Boðun hluthafafundar vegna stjórnarskipta ekki venjan ólíkt því sem haldið er fram
Í grein sinni varpar bæjarstjóri fram spurningum í kjölfar skrifa Trausta Hjaltasonar þar sem hann ítrekar óánægju minnihluta bæjarstjórnar um boðun hluthafafundar í stjórn Herjólfs ohf. hlutafélags í eigu Vestmannaeyjabæjar án þess að formleg ákvörðun hafi verið tekin á fundum sveitarfélagsins og að stjórnarkjör hafi verið á dagskrá þrátt fyrir að það eigi að fara fram á aðalfundum félagsins. Samt segir bæjarstjóri í grein sinni að ,,allar eigandaákvarðanir verða teknar á vettvangi bæjarráðs og fyrir opnum tjöldum og fundargerðir stjórnar félagsins verða sömuleiðis aðgengilegar fyrir bæjarbúa alla.”

Það verður þá vonandi breyting til batnaðar því þrátt fyrir að meirihlutinn vilji meina að slík vinnubrögð séu algild þá er sú venja viðhöfð i opinberum hlutafélögum ríkisins á borð við RÚV ohf og Isavia ohf að eingöngu er skipt um stjórn á aðalfundi sem gjarnan fer fram hátt í ári frá kosningum og upphlaup á borð við þetta fáheyrð.

Óánægja með fulltrúaskipan Sjálfstæðisflokksins
Bæjarstjóri furðar sig á því hví Sjálfstæðisflokkurinn tilnefndi ekki stjórnarformanninn í nýkjörna stjórn. Minnihlutinn ítrekað mótmælti bæði opinberlega og óformlega að fara ætti fram stjórnarkjör á hluthafafundi þar sem minnihlutinn lýsti yfir fullu trausti á stjórnina og þar með stjórnarformanninn. Að boða í flýti til hluthafafundar til að skipta út fulltrúum ber vott um vantraust. Minnihlutinn fékk að skipa tvo fulltrúa og taka þurfti tillit m.a. til kynjasjónamiða en niðurstaðan var að skipa áfram tvo fulltrúa með annars vegar lögfræðiþekkingu og víðtæka reynslu af sjávarútvegi og skiparekstri og höfðu þau bæði setið áður í stjórn Herjólfs ohf. Bæjarstjóri getur vissulega skipt sér af ýmsu og m.a.s. sett á hluthafafund félagsins í sínu eigin umboði án allrar formlegrar umræðu en þrátt fyrir óánægju um getur bæjarstjóri ekki ákveðið fulltrúaskipan minnihlutans enda væru slík afskipti bæði óeðlileg og ólýðræðisleg og tilburðir sem ég hef aldrei orðið vitni að hingað til.

Samstarf er ekki einstefnugata
Bæjarstjóri óskar eftir góðu samstarfi um samgöngumál allra bæjarfulltrúa á sama tíma og meirihlutinn hefur fundað amk. Í tvígang með samgönguráðherra án þátttöku né vitundar minnihlutans sem er vissulega ólíkt þeim vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið á vettvangi bæjarstjórnar í samgöngumálum á undanförnum árum. Samstarf er einfaldlega ekki einstefnugata.

Telji bæjarstjóri greinaskrif lýðræðislegra kjörinna fulltrúa sem sitja í umboði flestra íbúa Vestmannaeyjabæja í héraðsfjölmiðlum þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum af ólýðræðislegum vinnubrögðum meirihlutans ,,pólitískar flugeldasýningar” þá eru hæg heimatökin fyrir meirihlutann að taka ákvarðanir á borð við að setja á hluthafafund með stjórnarkjöri þar sem bæjarstjóri einn hefur seturétt, fyrir opnum tjöldum á fundum bæjarstjórnar eins og eðlilegast væri en ekki með einræðisákvörðun og þá hefðu þau skoðanaskipti sem hafa farið fram á vefmiðlum getað átt sér stað á fundi bæjarstjórnar þyki bæjarstjóra umræðan of eldfim.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum