Páll Marvin Jónsson

Sá undarlegi misskilningur virðist ganga milli manna á kaffistofum bæjarins og víðar að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjölskyldu- og tómstundarráði Vestmannaeyjabæjar setji sig upp á móti eða jafnvel lýsi sig andvíga þeim breytingum sem nýr meirihluti vill gera á frístundastyrknum sem nú þegar er boðið upp á fyrir börn á aldrinum 6-16 ára. Það væri undarlegt þar sem frístundastyrkurinn var settur á laggirnar af Sjálfstæðisflokknum á síðasta kjörtímabili. Hér er því enginn að vera á móti, bara til að vera á móti.

Ástæða breytinganna

Gísli Stefánsson

Hugmyndir nýs meirihluta snúa að því að lækka styrkhæfan aldur niður í 2ja ára og fögnum við því þó fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu hafi sett spurningar við þær breytingar sökum þeirrar ástæðu sem gefin var, þ.e. að nýting styrksins væri takmörkuð. Það þykir okkur ekki nægileg ástæða fyrir breytingunni. Betri ástæða væri e.t.v. að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn á aldrinum 2-6 ára væri of dýrt fyrir markhópinn eða að vöntun væri á slíku starfi og þá gæti svona styrkur verið hvatning fyrir einkaaðila að bjóða upp á slíkt starf.

Hvers vegna er styrkurinn ekki vel nýttur?

Töluverður hópur fólks þarf á þessum styrk að halda og þar liggja misjafnar ástæður að baki, þ.á.m. efnahagsleg staða og fjölmennar barnafjölskyldur. Sá hópur er samt ekki það stór að styrkurinn sé að fullu nýttur. Umsóknarferlið var í upphafi ekki rafrænt þó þar hafi verið bætt úr að einhverju leiti og það gæti haft áhrif á þá sem síður telja sig þurfa styrkinn. Svo má spyrja sig hvort næg reynsla sé komin á eftir þessi 2 ár sem styrkurinn hefur verið í boði.

Vinna fyrst gegn brottfalli

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu athugasemd þess efnis að réttara væri að hækka styrkhæfan aldur í 18 ára til að byrja með þar sem brottfall þeirra þátttakenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi sem hafa lokið grunnskólanámi er hvað mest. Einnig má nefna að kostnaður við íþróttastarf 16 ára og eldri er oft hvað mestur þar sem keppnisferðalög eru fleiri. Að styrkja þann hóp er því að okkar mati forgangsatriði.

Áhrif á útgjöld bæjarins

Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram á síðasta fundi fjölskyldu- og tómstundarráðs hefur nýting styrksins verið hlutfallslega lág miðað við þær áætlanir sem hafa verið í fjárhagsáætlunum bæjarins undanfarin tvö ár eða frá því að styrkurinn var settur á laggirnar. Tæp 60% nýttu sér hann í árið 2017 og aðeins um 40% það sem af er yfirstandandi ári. Því má vel vera að ef aldursbil þeirra sem geta þegið styrkinn verði víkkað rúmist það innan núverandi fjárhagsáætlunar en á sama tíma teljum vel mögulegt og mjög mikilvægt að halda fjárútlátum í málaflokkinn innan núverandi marka. Áætlanir um slíkt lágu þó ekki fyrir á síðasta fundi og teljum við mikilvægt að slíkt sé á hreinu þegar tekin verður ákvörðun um hvort frístundastyrknum verði breytt á einhvern hátt.

Hæfi formanns og annara nefndarmanna

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu athugasemd við hæfi fulltrúa meirihlutans í ráðinu þar sem nokkrir þeirra eru í forsvari og/eða sitja í stjórnum félagasamtaka sem hafa beina hagsmuni af þeirri breytingu sem lögð hefur verið fram af nýjum meirihluta. Það þykir okkur alvarlegt mál í ljósi þess að hér er verið að vinna með almanna fé og eitt af lykilorðum og loforðum þeirra í kosningunum sem tilheyra hinum nýja meirihluta voru betri og lýðræðislegri vinnubrögð. Auðvitað er það hvers og eins í ráðinu að meta sjálft hæfi sitt og þá boða varamann í sinn stað eða víkja af fundi á meðan málið er tekið fyrir.

Sterkur stuðningur við barnafjölskyldur

Undirritaðir telja afar mikilvægt að viðhalda öflugum stuðningi við barnafjölskyldur líkt og gert hefur verið í Eyjum undanfarin ár og auka þann stuðning enn frekar. Hins vegar þurfa ástæður fyrir breytingum að vera skýrar og vel áætlaðar og gerum við fastlega ráð fyrir að slíkt verði á borðum næst þegar fundað verður um málið.