Árshátíð Bjargveiðimennafélags Vestmannaeyja, eða Lundaballið eins og hátíðin er oftast kölluð er á næsta leiti. Álseyingar, sem sjá um Lundaballið í ár, hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi þess undanfarna mánuði. Ystaklettsmenn, sem áttu að sjá um ballið í ár, fetuðu í fótspor nágranna sinni í Ellirey og „beiluðu á“ að halda það og því kemur það í hlut Álseyinga að standa vaktina og halda þessa frábæru skemmtun.

Álseyingar hafa gegnum tíðina haldið lang flottustu Lundaböllin og því má búast við að hátíðin í ár verði enn betri en nokkru sinni áður.

Ballið verður haldin í Höllinni laugardaginn 29. september og mun hin frábæra hljómsveit Albatros, með Halldór Gunnar og Sverri Bergmann í fararbroddi sjá um tónlistarflutning.

Mikil ásókn er þegar orðin í miða á ballið, þó að það hafi ekkert verið auglýst, og er ljóst að salurinn verður þétt setinn. Á matseðlinum verður villibráð af ýmsu tagi og dagskráin verður í anda Álseyinga full af taumlausri gleði, glensi og tónlistarflutningi, en það mun allt verða auglýst nánar síðar.

Lundaballið er öllum opið og geta vinnustaðir, saumaklúbbar vinahópar og aðrir tekið þátt í gleðinni með bjargveiðimönnum. Álseyingar hvetja alla þá sem áhuga hafa á að taka þátt í gleðinni að tilkynna þátttöku sem fyrst. Við skráningu tekur Diidi Leifs í síma 844-3012 eða [email protected]

Eyjamenn, bæði frá Vestmannaeyjum og Norðurey, eru hvattir til þáttöku í þessu glæsilegasta Lundaballi allra tíma.

Álseyingar