Framkvæmdum ekki lokið nú þegar skólarnir eru að byrja

0
Framkvæmdum ekki lokið nú þegar skólarnir eru að byrja

Vestmannaeyjabær fór í margar endurbætur á skólabyggingum sínum í sumar. Á Kirkjugerði eru miklar framkvæmdir sem og í Barnaskólanum, en einnig er verið að bæta aðstöðuna á Víkinni. Nánast enginn framkvæmd hefur verið kláruð nú þegar skólarnir eru að byrja, en leikskólarnir byrjuðu í morgun.

Aðspurður um ástæður fyrir þessu sagði Jón Pétursson framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs hjá Vestmannaeyjabæ að ástæðurnar væru ýmsar. „ Það eru ýmsar ástæður fyrir því að framkvæmdir þær sem áttu að klárast í sumarfríinu í skólabyggingum bæjarins eru ekki tilbúnar á tíma.  Framkvæmdatíminn sem við höfum er stuttur þar sem vinna þarf þessi verk þegar starfsemi skólanna er ekki í gangi. Grunnskólinn er nýttur til gistingar fyrir peyja- og pæjumótin á sumrin sem styttir framkvæmdatímann. Leikskólinn er lokaður í mánuð og á þeim tíma er sumarfrí og Þjóðhátíð sem hefur áhrif. Mikið álag er á iðnaðarmönnum og þrátt fyrir að þeir leggi sig hart fram við að klára verkin þá getur vinnan verið tafsöm þar sem hún þarf að vinnast í samhengi við önnur verk.“

Óvenju mörg verkefni í sumar
Hann sagði að í sumar hefði verið farið í óvenju mörg verkefni. „Í Barnaskólanum er verið að koma upp skólastofum fyrir 5. bekkinga, færa vinnuaðstöðu kennara upp á efstu hæð, útbúa vinnuaðstöðu fyrir ráðgjafa skólans og það sem lengi hefur verið beðið eftir að bæta kaffistofu kennara og salernisaðstöð. Allt þetta verður tilbúið fyrir skólaopnun nema kaffistofa kennara tefst um nokkra daga.“

Ný leikskóladeild á Kirkjugerði
Á Kirkjugerði er verið að útbúa nýja leikskóladeild auk þess sem verið er að bæta aðstöðu starfsmanna, setja upp eldhús og færa undirbúningsherbergi kennara. „Þetta eru mikilvægar og stórar framkvæmdir sem munu bæta starfsemina til muna. Því miður urðu tafir en Vestmannaeyjabær hefur frábært starfsfólk sem mætti þeirri stöðu af æðruleysi og hóf starfsemina á tilteknum tíma. Þessum viðbrögðum starfsmanna ber að þakka. Á Víkinni er verið að skipta um fatahólf auk þess sem ein stofan verður hólfuð niður í minni rými. Þeim framkvæmdum fer að ljúka,“ sagði Jón
„Vonandi munu börnin og foreldrar finna sem minnst fyrir þessum töfum en ég vill þakka starfsmönnum skólanna fyrir skilninginn og þolinmæðina auk framlag þeirra til að allt þetta geti gengið upp og skólastarf byrji á réttum tíma.

Nú er nýtt skólaár að hefjast og hvet ég alla til að leggja sig fram við að nýta það og njóta á sem bestan máta. Vestmannaeyjabær hefur yfir að ráða góðu starfsfólki með metnað fyrir námi og að góður árangur náist. Undirritaður hvetur foreldra til að styðja vel við nám barna sinna og aðstoða þannig við að gera góða skóla bæjarins enn betri.“