Þann 5. júlí síðastliðinn voru Eyjafréttir kærðar fyrir viðtal sem birtist í blaðinu þann 9.maí 2018. Kærandi, Finnur Magnússon lögmaður hjá Juris, fyrir hönd umbjóðenda sinna taldi að birting umrædds viðtals Eyjafrétta undir fyrirsögninni „Nánast aldrei hitt barnabörnin þrátt fyrir að búa á sömu eyjunni,“ hafi Eyjafréttir gerst brotlegar gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands. „Kærendur telja að Eyjafréttir hafi með tilvísaðri umfjöllun brotið gegn 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands með því að vanda ekki upplýsingasöfnun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er.“

Kærendur kröfðust þess með bréfi til Eyjafrétta að blaðið leiðrétti frásögn sína og drægi umfjöllunina til baka. Þessari kröfu hafnaði ritstjóri Eyjafrétta, Sara Sjöfn Grettisdóttir og hafnaði því að fjölmiðillinn hafi á nokkurn hátt brotið gegn siðareglum Blaðamannafélagsins. „Skýrt kemur fram  … að um er að ræða reynslusögu aðila í Vestmannaeyjum … og Eyjafréttir dregur engar ályktanir eða fellir nokkra dóma um málefnið.”
Sá kærandi sig því knúinn til að kæra málið til Siðanefnar Blaðamannafélagsins.

Siðanefnd Blaðamannafélagsins úrskurðaði um málið 14. ágúst síðastliðinn og í umfjöllun þeirra um málið segir m.a. að megin inntak kærunnar er annars vegar að viðtalið skuli hafa verið birt án þess að sem umfjöllunin þess beindist að, skuli hafa verið gert viðvart um viðtalið og að þeir hafi ekki fengið að koma fram athugasemdum sinum við viðtalið. Hins vegar er það mat kærenda að lýsing sú sem fram kemur í hinu kærða viðtali, sé ígilt nafnbirtingar. „Þrátt fyrir að haldið sé leyndu nafni viðmælandans og þeirra sem um er rætt, er engum blöðum um það að fletta hver viðmæladinn er og um hverja er rætt. Í litlu bæjarfélagi á borð við Vestmannaeyjar veit það hver sem vill.“

Mat siðanefndar um nafnleynd og hvort auðvelt sé að greina hver viðmælandinn sé sem um er rætt, taldi siðanefnd sig ekki geta metið. „Það hlýtur alltaf að vera svo að þeir lesendur, sem þekkja til mála, geti greint um hverja er fjallað um hverju sinni, en aðrir ekki. Hjá því verður aldrei komist, hvernig sem um hnútana er búið,“ segir í úrskurði.

Í úrskurði nefndarinnar segir einnig að umræða um tálmun hafi verið áberandi undanfarin misseri og hafa slík mál komið til kasta siðanefndar. Það er álit nefndarinnar að umfjöllun fjölmiðla um tálmanir eigi fyllilega rétt á sér, enda sé þess gætt að vanda hana í hvívetna. „Samhliða viðtalinu fjalla Eyjafréttir um tálmun almennt og rétt ömmu og afa til þess að umgangast barnabörn sín. Það er gert með viðtölum við félagsráðgjafa, sálfræðing og fulltrúa hjá sýslumanni til að varpa ljósi á réttarstöðuna. Að því leyti til er umfjöllun Eyjafrétta vönduð og upplýsandi. Blaðið hafnaði kröfu kærenda um að draga viðtalið tilbaka, en bauð þeim að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það boð var ekki þegið.“

Mat siðanefndar er að Eyjafréttir hafi með hinu kærða viðtali og tengdri umfjöllun fjallað á faglegan hátt um málefni sem er ofarlega á baugi og ekki farið á svig við siðareglur BÍ.

Hægt er að sjá úrksurðinn í heild sinni hérna.