Á fundi bæjarráðs í gær kom fram að samgönguráðherra hyggst skipa samráðshóp sem tryggja á öruggar samgöngur til Vestmannaeyja.

Hlutverk hópsins er m.a. að eiga samráð um framkvæmd samnings um yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri nýrrar ferju og um þau álitamál sem upp kunna að koma og krefjast úrlausnar. Einnig mun hópurinn fara yfir og setja fram áætlun um þau atriði er varða höfnina og aðstöðu og fyrirhugaðar framkvæmdir við hana. Hópurinn mun svo fylgjast með framvindu verkefna og greiða úr þeim mögulegu vandkvæðum sem upp geta komið.

Hópurinn verður skipaður fimm fulltrúum. Auk Vestmannaeyjabæjar mun Vegagerðin og Samgönguráðuneytið eiga fulltrúa í samráðshópnum.
Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar verða Sveinn Valgeirsson og Hildur Sólveig Sigurðardóttir.