Það hafa eflaust margir rekið upp stór augu á sunnudagsrúnt sínum um nýja hraunið, nánar tiltekið á útsýnispallinn við Flakkarann. En þar hefur mátt sjá heljarinnar tréstaur standa upp á endann.

Þarna er á ferðinni hugvit og framkvæmdagleði Marinós Sigursteinssonar eða Mara pípara eins og flestir þekkja hann. „Hugmyndina fékk ég að láni frá Austurríki en slíkan “útsýnisstaur” sá ég á ferðalögum mínum þar,” sagði Mari í samtali við Eyjafréttir.

Mari með aðstoð fleiri góðra manna kom staurnum þarna fyrir á dögunum og hefur undanfarið verið að dunda sér við að bora göt á hann. „Götunum er ætlað að beina augum fólks að einstaka punktum í náttúru Eyjanna. Ætlunin er svo að merkja við hverja holu hvað þar er að sjá og fjarlægðina þangað,” sagði Mari sem vonaðist til að staurinn yrði merktur og kláraður í næstu viku. „Ég á enn eftir að bora nokkrar holur en þetta er alveg að hafast.”

Halldór B. Halldórsson var á staðnum á miðvikudaginn var og fylgdist með Mara og félögum bora nokkrar holanna. Myndband frá því má sjá hér að neðan.