Framtíðarhúsnæði slökkvistöðvar var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í gær. Ekki eru meiri- og minnihlutinn þar sammála.

Vilja skoða aðra möguleika
Í bókun minnihlutans segir að þau séu mótfallin þeim áætlunum sem fram koma hjá meirihlutanum um að Slökkvistöð Vestmannaeyja verði komið upp austan við kyndistöðina Kröflu við Kirkjuveg og greiðum því atkvæði gegn því að henni verði fundin lóð á þessu svæði.

Við höfum fullan skilning á því að gera þarf bragarbót á húsnæðiskosti Slökkviliðs Vestmannaeyja, en við teljum ekki sterk rök fyrir því að ný slökkvistöð rísi á þeim stað sem lagt er til. Umrædd staðsetning er nálægt gróinni íbúabyggð og í nálægð við Landakirkju sem að mati undirritaðra er eðlilegt að fái að njóta sín í umhverfinu. Þá er ljóst miðað við fyrirliggjandi gögn að grunnflötur hússins yrði u.þ.b. 20×40 metrar og hæðin 9,5 metri og augljóst er að hús með grunnfleti sem er 800 fermetrar er mjög afgerandi í heildarmynd þess svæðis sem eftir á að deiliskipuleggja á malarvellinum við Löngulág. Er það til þess fallið að draga úr möguleikum þessa svæðis að mati undirritaðra. Þá má einnig benda á að horn Kirkjuvegs og Heiðarvegs ber mikinn umferðarþunga alla jafna og vart er á það bætandi.

Það er okkar mat að skoða ætti áfram aðra þá möguleika sem nefndir eru í minnisblaði um framtíðarstaðsetningu Slökkvistöðvar Vestmannaeyja og horfum við þá sérstaklega til svæðis þar sem nýtt iðnaðarsvæði kemur til með að vera, sem og þess svæðis sem stöðin er á nú eða í nálægð við það. Slíkt er með öllu talsvert inngripsminni ákvörðun heldur en sú sem meirihlutinn er að ákveða nú, segir í bókun minnihlutans.

Á síðasta kjörtímabili sammála
Í bókun meirihlutans segir að þau vísi í vinnu starfshóps skipuðum fulltrúum allra framboða sem áttu fulltrúa í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili og voru sammála um staðsetningu nýrrar slökkvistöðvar austan við kyndistöð við Kirkjuveg. Undirrituð taka undir tillögu starfshópsins.

Meirihluti ráðsins felur skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við skipulagslýsingu í samræmi við 1. mgr. 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.