Lagt var til á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í gær, þriðjudaginn 28. ágúst, að gerðar verði breytingar á aldursviðmiðum reglna um frístundastyrk þannig að styrkurinn gildi frá 2ja ára aldri í stað 6 ára. Lagt er til að breytingin taki gildi frá og með 1. október nk.

„Það er stefna meirihlutans að betrumbæta og gera styrkinn aðgengilegri fyrir fleiri. Þetta er fyrsta skrefið í átt að þeim breytingum. Með þessum breytingum á aldursviðmiðunum er vonast til þess að samstarfsaðilar bjóði upp á skipulagt íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn niður að 2ja ára aldri. Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundarstarfi getur haft veigamikil forvarnaráhrif og því gott að byrja snemma að tileinka sér slíka iðju, ” segir í fundagerð ráðsins.

Fulltrúar minnihlutans í ráðinu, Páll Marvin Jónsson og Gísli Stefánsson, samþykktu tillöguna en lögðu fram eftirfarandi bókun: „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja tillögu meirihlutans enda fellur hún að þeim upplýsingum sem komu fram á fundinum og eru innan fjárhagsáætlunar. Við teljum þó að betra hefði verið að hækka aldurbilið upp í 18 ár til að byrja með, m.a. vegna brottfalls ungs fólks úr skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, en það má skoða fyrir fjárhagsáætlunargerð næsta árs. Jafnframt viljum við ítreka efasemdir okkar um hæfi formanns ráðsins til þess að taka þátt í umræðu og ákvarðanatöku.“