Georg Eiður – Sumarfrí 2018

Georg Eiður Arnarson

Fór í sumarfrí 27. júlí og mætti aftur til vinnu 27. ágúst. Tók því nákvæmlega mánaðar frí, sem er sennilega lengsta frí sem ég hef tekið. Sumarfríið mitt byrjaði með ferð norður í perlu norðursins, Grímsey, en það er alltaf jafn gaman að koma þangað og þessi tilfinning sem ég fæ alltaf þegar ég er kominn umborð í Herjólf að nú sé ég í raun og veru kominn heim, Grímsey kemst sennilega næst þessu hjá mér, en fuglalífið, fólkið og bara eyjan öll er eitthvað sem ég mæli sérstaklega með að fólk heimsæki og frétti m.a. af því að móðir mín lét sig hafa það, núna seinni partinn í ágúst, að gera sér ferð út í Grímsey. 3 tíma sigling, 4 tímar á eyjunni og 3 tíma sigling tilbaka, en eins og hún orðaði það, það var svo sannarlega þess virði.

Helgina á eftir var síðan komið að stór hátíð okkar eyjamanna, Þjóðhátíðinni sjálfri og ég ætla að byrja á því að hrósa Þjóðhátíðarnefnd fyrir þann kjark sem þau sýndu með því að láta loksins verða af því að losa okkur við þetta leiðinda atriði sem heitir slagsmálin um stæðin, en mér fannst þetta takast afskaplega vel, ég veit að það voru margir sem voru á móti þessu, en í fyrsta skipti í þó nokkur ár byrjaði Þjóðhátíðin ekki á leiðinlegum myndböndum af því sem fylgt hefur þessu kapphlaupi um stæðin og ég vona svo sannarleg að þessi aðferð sé komin til að vera. Fyrir mitt leyti var Þjóðhátíðin alveg frábær í alla staði. Einhverjir voru að kvarta undan leiðinda veðri á sunnudagskvöldinu, en ég er nú svo skrýtinn að mér finnst eitthvað vanta ef við fáum ekki amk. smá bleytu og einhvern vind, en þetta truflaði mig ekki neytt.

Eitt langar mig að nefna líka sérstaklega tengt Þjóðhátíðinni, ég styð lögreglustjórann í Vestmannaeyjum heils hugar í því, að láta rannsóknar hagsmuni og hagsmuni þeirra sem verða fyrir hvers konar áföllum ganga fyrir og mér finnst allt í lagi, þó að fréttamenn sem hafa atvinnu af og aðrir sem hafa gaman af að tala niður Þjóðhátíðina okkar þurfa að bíða aðeins eftir fréttunum.

Helgina eftir Þjóðhátíð var svo tekinn rúntur um landið okkar með fellihýsi og byrjuðum við á því að fara að Úlfljótsvatni, sem ég hafði ekki gert áður, og langar að óska öllum skátum til hamingju með þetta svæði. Frábært að koma þangað, ekki nema 20 mín frá Selfossi, öll aðstaðan til fyrirmyndar og þarna á ég svo sannarlega eftir að koma aftur síðar.

Tókum svo nokkra daga við að elta sólina norður í land og fundum sólina á Blönduósi, stoppuðum þar í 2 daga, tók svo strikið heim á leið enda framundan spennandi ferð til Færeyja og þangað fórum við 3. helgina í ágúst, en okkur hafði verið boðið að fara með út í eyjuna Sandey sem er frekar sunnarlega í Færeyjum, en þangað er siglt með ferju í hálftíma, ekki ósvipað og í Landeyjahöfn. Sandey er eitthvað stærri en Heimaey, þar búa rúmlega 1200 manns í nokkrum litlum þorpum, en þrátt fyrir það þá liggur nú þegar fyrir áætlun um það að gerð verði neðansjávargöng sem taka á í notkun árið 2024. Ætlunin er að göngin tengi saman Straumey, Sandey og Suðurey innan nokkurra ára. Þetta verða lengstu göng í Færeyjum og mikil framtíðar sýn í þessu, en það kostaði töluvert hangs í báðar áttir að komast með ferjunni sem er frekar gamaldags og lúin.

Við keyrðum um alla eyjuna og komum í 5 þorp en það vakti sérstaklega athygli mína, að í öllum þessum 5 þorpum var ágætis bryggju aðstaða, en aðeins í einu þorpinu voru einhverjir bátar, en að sögn heimamanna eru fáir eða enginn sem hefur atvinnu af sjómennsku í þessum þorpum. Eitt lítið frystihús er á einum stað, en allur fiskur sem kemur í það, kemur með ferjunni þó að þar sé fínasta höfn. En það er gríðarlega margt að sjá á þessari eyju, ofboðslega falleg hús í þorpunum og sum þeirra frá því á 19. öld. Við gistum í hótel Skálavík, sem er nýtísku hótel. Þar er hægt að leigja sér veislusal, einnig er hægt að leigja sér heitan pott og litla kofa til að grilla sér mat í, en við tókum einmitt þátt í einu slíku þar sem allir sitja í hring inni í kofanum og grillið er í miðjunni. Náttúran svíkur að sjálfsögðu engan sem heimsækir Færeyjar, en ég tók eftir því í fréttunum í vikunni að í fyrsta skipti í sögunni náðu Færeyingar því að fara yfir 51 þúsund íbúa, en töluvert er um að ungt fólk sé farið að sækja í að flytja til Færeyja.

Ég var aðeins 3 daga í Færeyjum, enda ætlaði ég að nota síðustu dagana í fríinu til að klára ýmislegt sem ég átti eftir að klára hérna heim við, sem ég og gerði, en það vakti sérstaka athygli mín að flugið frá Færeyjum til Reykjavíkurflugvallar tók aðeins 1 klst og 10 mín, en ég var svo óheppinn að koma út úr flugstöðinni á slaginu 17:00 þegar háanna tíminn er í umferðinni í Reykjavík, en það tók mig nákvæmlega 1 klst að komast frá flugvellinum að Kringlunni, sem ég giska á að séu svona ca. 5-6 km og ég trúi ekki öðru en að ráðamenn borgarinnar fari nú að gera eitthvað í þessu.

Það er alltaf jafn gaman að koma heim og bara ágætt að vera byrjaður að vinna aftur. Framundan er nýtt fiskveiðiár með töluverðum auknum aflaheimildum, ég ætla því að enda þetta með því að óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs fiskveiðiárs.

Georg Eiður Arnarson