Tveir karl­menn voru í Héraðsdómi Suður­lands í júlí dæmd­ir í sex mánaða fang­elsi fyr­ir til­raun til ráns og lík­ams­árás þegar þeir reyndu að hafa fjár­muni af öðrum karl­manni með því að neyða hann til að taka fjár­muni út úr hraðbanka, mbl.is greindi frá.

Í dómi héraðsdóms kem­ur fram að maður­inn sem reynt var að ræna hafi komið á lög­reglu­stöðina í Vest­manna­eyj­um klukk­an þrjú um nótt eft­ir ránstilraun­ina. Hafi hann verið áber­andi ölvaður og greint frá því að maður hafi farið með sig í hraðbanka Lands­bank­ans í Eyj­um til að taka út pen­ing. Það hafi ekki gengið eft­ir og þegar þeir komu út hafi ann­ar maður komið að og slegið hann í hnakk­ann. Tóku tví­menn­ing­arn­ir því næst veski af mann­in­um sem í var greiðslu­kort og 20-30 þúsund krón­ur í pen­ing­um.

Maður­inn sem ráðist var á sagðist hafa kom­ist und­an á hlaup­um og falið sig í skurði þangað til hann gekk á lög­reglu­stöðina. Í skýrslu­tök­um síðar kom fram að ann­ar árás­ar­mann­anna hefði talið brotaþol­ann skulda sér pen­ing fyr­ir bjór. Hefði hann meðal ann­ars hótað lík­ams­meiðing­um ef ekki kæmi til greiðslu. Þaðan hefði því leiðin legið í hraðbank­ann.

Sam­kvæmt mynd­bandi úr ör­ygg­is­mynda­vél við bank­ann má sjá ann­an mann­anna fara inn í and­dyrið þar sem hraðbank­inn var. Varnaði hann ít­rekað mann­in­um sem ráðist var á út­göngu og ýtti hon­um aft­ur að hraðban­an­um.

Þá staðfesti lækn­ir sem skoðaði brotaþola dag­inn eft­ir að hann hefði fengið höfuðhögg en áverk­ar hefðu verið smá­vægi­leg­ir þrátt fyr­ir að alltaf væri hætta á að svona höggi gæti fylgt hætta. Þá hefðu áverk­arn­ir komið heim og sam­an við frá­sögn brotaþol­ans.

Að mati dóms­ins var framb­urður brotaþola afar trú­verðugur og vafa­laust að báðir menn­irn­ir sem ákærðir voru hefðu átt þátt í at­b­urðarás­inni. Hefðu þeir báðir tekið þátt í að hóta lík­ams­meiðing­um. Neituðu tví­menn­ing­arn­ir báðir sök, en dóm­ur­inn taldi framb­urð þeirra ótrú­verðugan.

Eru þeir sem fyrr seg­ir dæmd­ir til sex mánaða skil­orðsbund­ins fang­els­is og til að greiða all­an mál­svarn­ar­kostnað.

www.mbl.is greindi frá.