Á fundi bæjarráðs í gær, miðvikudag fór bæjarstjóri yfir fund sem hún átti með Vegagerðinni þann 28. ágúst sl., þar sem fram kom að frekri seinkun væri á afhendingu nýs Herjólfs. Áætluð afhending í Póllandi er 15. nóvember nk. Væri skipið þá væntanlegt til Vestmannaeyja um mánaðarmótin nóvember/desember, en Vegagerðin álítur að enn frekari seinkun gæti orðið. Samkvæmt Vegagerðinni er staðan á Landeyjahöfn góð varðandi dýpi og áætlað er að hefja dýpkun seinni partinn í september nk.

Á sama fundi fór Grímur Gíslason stjórnarmaður yfir stöðuna hjá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. Hér að neðan má sjá stutt yfirlit Grímsum stöðuna.

  • Grímur Gíslason og Páll Guðmundsson stjórnarmenn voru á ferð í Póllandi í síðustu viku og gerðu sér ferð til Gdynia til að skoða nýsmíði Herjólfs. Er það þeirra mat að vel megi halda á spilunum ef að áætluð afhending 15. nóvember á að ganga eftir. Þeirra trú er að allt eins megi búast við frekari seinkunum og að jafnvel fari nýja ferjan ekki að sigla milli lands og Eyja fyrr en á nýju ári.
  • Unnið er að ráðningu framkvæmdastjóra og er sú vinna í ferli hjá Capacent. Stefnt er að því að framkvæmdastjóri verði ráðinn í næstu viku.
  • Fjöldi umsókna barst um aðrar stöður hjá fyrirtækinu og verður tekið til við að vinna úr þeim um leið og búið verður að ráða framkvæmdastjóra.
  • Verið er að vinna frumvinnu varðandi næstu skref við endurnýjun bókunarkerfis.
  • Gerð skírteina og vottorða er í vinnslu og miðar vel áfram.
  • Gott samstarf er við Vegagerðina varðandi eftirlit starfsmanna Vestmannaeyjaferjunni Herjólfs ohf. með smíðinni.
  • Fyrstu drög að öryggismönnun skipsins liggja fyrir og verður áfram unnið að því í samvinnu við Vegagerðina að ákveða mönnun á skipinu.