Eyþór Harðason útgerðastjóri Ísfélagsins

Makrílvertíðin hefur gengið ágætlega hjá Ísfélagsskipunum sagði Eyþór Harðarsson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu í samtali við Eyjafréttir, en sagði jafnframt að hún væri heldur frábrugðin vertíðum síðust ára. „Nú hefur makríllinn veiðst í minna magni á svæðinu út af austfjörðum og suður af þeim, en yfirleitt var hægt að ganga að honum vísum í nokkrar vikur seinnipart sumars á þeim slóðum. Við höfum veitt um 13.000 tonn nú í byrjun september, en 1700 tonn af því hefur verið veitt í grænlensku lögsögunni, en það er viðbót við kvóta Ísfélagsins í makrílveiðinni. Nú eru um 4.000 tonn eftir af 15.200 tonna aflaheimildum í makríl hjá okkur og reiknum við með að það klárist um miðjan September,“ sagði Eyþór.
Eftir það tekur við veiði úr norsk íslenska síldarstofninum, „þar erum við með um 16.000 tonna aflaheimildir.“
Makríllinn hefur verið unninn í frystihúsum Ísfélagsins í Eyjum og Þórshöfn, „en héðan í frá reiknum við með vinnslunni eingöngu á Þórshöfn þar sem veiðin er norðarlega í Smugunni og um 30 tíma sigling á Þórshöfn og enn lengra til Eyja,“ sagði Eyþór.

Spennandi að sjá hvernig Ottó kemur út í samanburði við minni skip
Nú er hafin bolfiskvinnsla í Eyjum og sagði Eyþór að Ottó N. Þorláksson hafi landað hér á föstudaginn rúmum 100 tonnum af blönduðum afla. Dala Rafn landaði á mánudaginn um 50 tonnum og uppistaðan þorskur. „Breytingin í bolfiskútgerðinni er aðallega sú að núna erum við með stærra og öflugra togskip í Ottó N. Þorlákssyni heldur en Suðurey. Togkraftur mun meiri og burðargeta rúm 500 kör í stað 240 kara í Suðurey. Þetta mun gjörbreyta möguleikum okkar í að sækja fisk á fjarlægari mið og mun tryggja enn betur hráefnisöflun í frystihúsin okkar,“ sagði Eyþór. Ferskfiskvinnslan í Eyjum ætti því að aukast, „þegar við komum með fleiri kör af þorski veiddum á styttri tíma til dæmis af vestfjarðarmiðum en áður. Þó svo að Ottó sé orðin 37 ára gamall þá er vélbúnaður í góðu ásigkomulagi og skipið með langa og farsæla sögu í rekstri hjá HB Granda. Það verður spennandi að sjá hvernig Ottó mun koma út í samanburði við minni skip eins og Suðurey og Dala Rafn, en okkur þótti þetta kjörið tækifæri að kanna kosti þess að reka stærra og öflugra skip en undanfarið. Ef það kemur vel út þá vitum við hvert skal stefna í næstu endurnýjun á bolfiskskipi fyrir Ísfélagið, en síðustu tvær nýsmiðar voru í uppsjávarskipunum Sigurði og Heimey,“ sagði Eyþór að endingu.