Þeir voru ófáir pysjubjörgunarmennirnir á ferli síðustu daga enda pysjutíminn í hámarki.

Tvívegis var slegið heimsmet í fjölda vigtaðra og vængmældra pysja í pysjueftirliti Sæheima. En eftirlitið er á nýjum stað í ár. Í “Hvíta húsinu” að Strandvegi 50, gengið inn baka til.

Á fimmtudaginn var komið með 472 pysjur sem er mesti fjöldi síðan mælingar hófust árið 2003.
En metið stóð ekki lengi því á sunnudaginn komu hvorki meira né minna en 532 pysjur á vigtina. Þá kom Jón Ólafur Sveinbjörnsson einnig með þyngstu pysju ársins, hingað til, og vóg hún 368 grömm.

Í heildina hafa því verið mældar og vigtaðar 2755 pysjur. Á sama tíma á síðasta ári voru þær 3533 en þá urðu þær í heildina 4812 og er metár.

Opið er frá kl. 13 til 18 alla daga í pysjueftirlitinu að Strandvegi 50. En þar til þar opnar kl. 13 er hægt að koma með pysjur í Sæheima.