Stærsta umhverfisslys 21. aldarinnar er umhverfisstefna Vinstri grænna*

Örvar Guðni Arnarson skrifar

Örvar Guðni Arnarson skrifar.

Brennum þá alla, brennum þá alla upp til agna
Eins græningja rusl er annars græningja eldsneyti. Við flytjum fjöll af rusli heimsálfanna á milli til endurvinnslu með miklum tilkostnaði. Kostnaðurinn er ekki bara flutningarnir með skipum, heldur þrif á plastílátum og mjólkurfernum, fermetrum fyrir ruslatunnur, fleiri öskubílaferðum og orku og efnum til endurvinnslunnar. Og í lok dags njótum við dygðaskreytinganna yfir vel heppnuðu framtaki. Í skólastofum kennum við börnunum mikilvægi flokkunar (gagnrýnislaust?) og fyrirtækin keppast um hylli viðskiptavina með stefnum, skýrslum og söluræðum um hversu umhverfisvæn starfsemi þeirra er. Ekki ætla ég að segja hér á þessari blaðsíðu að þetta sé allt tóm vitleysa, en samt (mér finnst það skemmtilegra).

Getum við gert þá kröfu að stjórnmálamenn sanni fyrir okkur kosti þess að tóm skyrdolla sé flutt alla þessa leið í endurvinnslu umfram að brenna hana í heimabyggð og nota orkuna sem losnar til gagns. Sem dæmi um gagnsemi þess að nota plastpoka í stað taupoka þá má benda á að danska umhverfisstofnunin skilaði skýrslu** fyrr á þessu ári þar sem niðurstaðan var sú að til þess að taupoki sé umhverfisvænni en hefðbundinn plastpoki þurfi að nota hann 7.100 sinnum, að því gefnu að plastpokinn sé notaður í ruslið og brenndur í lok notkunar og hitinn nýttur. Ef þú vilt frekar pappírspoka skaltu gjöra svo vel að nota hann 43 sinnum (gangi þér vel með það).

Stefnur án árangurs
Á sama tíma og stjórnmálamenn þyrpast saman til skrafs á heimsráðstefnum og njóta klapps á bakið og dygðaskreytinganna yfir umhverfisstefnu sinni (ekki árangri, bara stefnu) er Landhelgisgæslan að taka olíu í Færeyjum. Skip Gæslunnar taka olíu í Færeyjum í þeim eina tilgangi að Gæslan spari sér kolefnisgjöld og virðisaukaskatt heima fyrir. Ætli 50 tonn af koltvíoxíð sé ekki dælt út í andrúmsloftið í þessum tilgangi í hverri ferð (hvað ætli það séu margir plastpokar?). Allt til að spara aurinn í vinstri vasanum á kostnað hægri vasans.

Rykský fyrir augum stjórnvalda
Íslensk stjórnvöld hafa amast út í starfsemi fiskimjölsverksmiðja yfir rykmengun vegna olíubrennslu frá þeim. Uppi á borðum eru mælingar og viðmið. Til eru viðmið um rykmengun við stórar umferðaræðar og við tiltekin míkrógrömm á rúmmetra er ekki mælt með því að standa við æðarnar og njóta umferðarinnar. Sambærilegar mælingar eru gerðar inni í skorsteinum mjölverksmiðjanna sem púa út rykinu og viðmiðin eru sambærileg. Því mæla stjórnvöld ekki með því að standa með hausinn í opi skorsteinsins þegar magn ryks er meira en 100 míkrógrömm á rúmmetra inni í skorsteininum. En ólíkt er brugðist við, stjórnvöld stöðva ekki bílaumferðina en setja hins vegar stein í götu mjölverksmiðjanna þegar þau telja varasamt fyrir almenning að troða hausnum á sér inn í skorsteininn. Ekki er tekið tillit til þess þó að brennslan sé aðeins fáeina daga á ári, rykið þynnist hressilega út og dreifist eitthvert út í rassgat með kára.

Ekki er mælt með plankaæfingum og sambærilegum líkamsræktaræfingum ef hausinn er við eða ofan í strompi fiskimjölsverksmiðju sem er í fullum rekstri.

Kolóðir rafbílar
Í þeim tilgangi að draga úr losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið hafa stjórnvöld niðurgreitt rafmagnsbíla með afnámi vörugjalda, virðisaukaskatts og bensínskatta. Mér reiknast til að fjárhæðin gæti numið 200 krónum á lítrann (miðað við eðlilegar forsendur og snúið yfir á áætlaða sparaða bensínlítra***). Til samanburðar má benda á að í skýrslu Umhverfisstofnunar árið 2010 var áætlað að við endurheimt votlendis myndi hvert koldíoxíð sem “sparast” kosta um 0,2-0,9% af kostnaðinum við koldíoxíðsparnað rafmagnsbílsins. Og áður en stoltur eigandi rafmagnsbíls fær bíllyklana sína hafa 10 tonn af koltvíoxíði þegar verið losuð út í andrúmsloftið við framleiðslu “no carbon emission” bílsins**** eða um 4 tonnum meira en frá framleiðslu bensínbíls.

Sótsvartir dieselbílar
Það var gömul kredda í Evrópusambandinu að díselbílar væru umhverfisvænni en bensínbílar. Og þennan misskilning töldu stjórnmálamenn sig þurfa að „innleiða“ á Íslandi. En á meðan stjórnmálastéttin var að umturna öllum eldsneytis- og bílasköttunum hér á landi til að reka fólk úr bensínbílum yfir í díselbíla hafði runnið upp fyrir ríkisstjórnum vítt og breitt um Evrópu að mengunin frá díselbílum er margfalt meiri og verri en frá bensínbílum.
Svo langt hefur þessi viðsnúningur gengið að menn ræða í alvöru í stórborgum Evrópu að greiða fólki fyrir að losa sig við díselbílana sem það var áður hvatt til að kaupa! Ástæðan er sú að NOx og sótmengun frá díselbílunum er margföld á við það sem stafar frá bensínbílunum.

Brennisteinsfjöll olíuhreinsunarstöðva.

Brennisteinsfjöllin manngerðu
Frá og með 2020 verður bannað að brenna olíu með yfir 0,5% brennisteinsinnihaldi um borð í skipum. Reglur þessar eru alþjóðlegar og hafa þær þegar verið innleiddar á stórum hafsvæðum og árið 2020 í öllum heimsins höfum. Tilgangurinn er að draga úr myndun brennisteinsdíoxíðs og ryks við brennslu olíunnar. Ryk hefur neikvæð áhrif á heilsu manna og nægir að horfa til stórborga í Kína í því sambandi. Þessar reglur banna í raun notkun svartolíu.
Ríkisútvarpið stökk á vagninn í fyrra þegar Þjóðverji nokkur (í boði Náttúruverndarsamtaka Íslands) gekk um hafnarbakkann í Reykjavík og mældi með litlu tæki rykmagn sem átti að koma frá brennslu svartolíu risaskemmtiferðarskips sem lá við bakkann. Niðurstaða ráðgjafans var kynnt landsmönnum, dómsdagstónn fréttastofunnar var hækkaður í botn og spáð var fyrir um hroðalega framtíðarsýn landsmanna sem voru þarna nýbyrjaðir að melta kvöldmatinn. Þáverandi umhverfisráðherra boðaði hertar reglur í fréttatímanum og tók sérstaklega fram með skýrum hætti að stoppa þyrfti þessi skip í að brenna svartolíu í höfnum landsins. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sá sér leik og hvatti í fréttatímanum til þess að banna svartolíumengandi skemmtiferðaskipum að leggjast að bryggju. Fljótlega eftir þetta fréttamoldvirði kom í ljós að brennsla svartolíu í hafnarlegu var þegar bönnuð samkvæmt reglugerð umhverfisráðuneytisins og skemmtiferðaskipið brenndi einmitt brennisteinslausri gasolíu. Mætti þá spyrja sig 1) hvað var Þjóðverjinn þá að mæla 2) hvað var ráðherrann að pæla og 3) hvern ætlar RÚV næst að spæla. Enn á eftir að koma afsökunarbeiðni frá fréttastofunni fyrir (í besta falli) villandi fréttaflutning.

Ráðgjafinn að mæla rykmengun frá svartolíubrennslu risa-skemmtiferðaskipsins við hafnarbakkann, niðurstöðurnar komu hræðilega út þrátt fyrir, eins og síðar kom í ljós, að skipið hafði verið að brenna brennisteinslausri gasolíu og vindáttinn nokkuð óhagstæð mælitækinu.

En aftur að reglunum. Nú þurfa olíuhreinsunarstöðvar að bretta upp ermar og hreinsa brennistein úr hráolíu eins og enginn sé morgundagurinn. Fjölmargar stöðvar hafa ekki búnaðinn til þess og meiriháttar fjárfestingar liggja í loftinu. Og rétt eins og camembert kemur ekki úr beljunum þá kemur brennisteinslaust bensín ekki úr borholunum. Hráolían er unnin í gas, bensín, létta gasolíu, þunga gasolíu og tjörudrullu. Allt þetta þarf að nýta. Og venjulegur maður hlýtur að spyrja sig; hvað verður þá um brennisteininn sem er hreinsaður úr olíunni?
Það þarf að geyma hann í haugum alla ævi Vinstri grænna.

Höfundur er áhugamaður um að skila Jörðinni í betra ástandi til komandi kynslóða


* Það eru eingöngu stælar í greinarhöfundi að eigna Vinstri grænum sérstaklega umhverfisstefnu aldarinnar. Hér hefði mátt setja hvaða stjórnmálaflokk sem er, en Vinstri grænir liggja vel við höggi. Við skulum segja það bara.

** „Life Cycle Assessment of grocery carrier bags“. Ministry of Environment and Food of Denmark, febrúar

*** Um 1.200 þús í afslátt innflutningsgjalda, 10 ára líftími bíls sem ætti annars að eyða 6 ltr/100 km og færi 20 þús. km á ári. Vörugjöld á bensín, bensíngjald, kolefnisgjald og virðisaukaskattur á þessi gjöld er ekki greiddur.

**** 4 „Are Electric Cars Really Green“ Prager U