Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vill leiðrétta mismunun hjá börnum með fæðingargalla eins og til dæmis klofinn góm sem varðar endurgreiðslur fyrir tannréttingar. Ráðherra sagði í gær að fyrirkomulagið væri óeðlilegt og hefur farið fram á að málið verði skoðað í ráðuneytinu svo hægt verði að breyta reglugerð til að jafna stöðu allra barna með fæðingargalla.
Í síðustu viku sendi Ragnheiður Sveinþórsdóttir móðir 8 ára drengs sem fæddist með klofinn góm en heila vör, fyrirspurn á alla þingmenn og einnig sendi hún þennan pistil sem Eyjafréttir birtu. Hlutirnir gerðust hratt því á alþingi í gær vakti Karl Gauti Hjaltason athygli á að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga nái ekki yfir öll börn. Þannig að barn sem fætt er með klofinn góm en ekki skarð í vör, fær ekki endurgreiddar tannréttingar sem eru barninu nauðsynlegar. Kostnaður fellur því á fjölskyldu barnsins sem á ekki endilega fyrir honum.
Heilbrigðisráðherra sagðist vita af þessum og vill leiðrétta þá mismunun sem sé í gangi.