Í ljósi þeirrar umræðu sem nú er farin af stað í nefndum, bæjarstjórn og meðal almennings um byggingu og staðarval nýrrar slökkvistöðvar, sér undirritaður sig knúinn til að koma á framfæri nokkrum staðreyndum um þetta mál og vonandi leiðrétta eitthvað af þeim ranghugmyndum sem fólk virðist vera búið að mynda sér.

Umræðan og krafan um nýtt húsnæði fyrir slökkviliðið er ekkert ný af nálinni,en þetta hefur verið baráttumál í áratugi án þess þó að nokkuð hafi komið út úr því annað en hugmyndir sem aldrei urðu að veruleika. Núverandi slökkvistöð er barn síns tíma og rúmar engan veginn þann búnað og aðstöðu sem tilheyrir svona starfsemi bæði hvað varðar aðbúnað starfsmanna og tækja og sem dæmi þá hefur nýi körfubíllinn okkar sem kom í febrúar verið í geymslu úti í bæ því það er ekki pláss fyrir hann á stöðinni.
En án þess að gera langa sögu lengri þá var það ekki fyrr en á síðasta ári að sýndur var raunverulegur áhugi á að gera eitthvað vitrænt í þessu máli með því að veita 12.milljónum af fjárhagsáætlun ársins 2018 til undirbúningsvinnu og hönnunar á nýrri slökkvistöð, og nú í vor var málið komið svo langt að fyrir s.l. bæjarstjórnarkosningar höfðu tvö framboð það á stefnuskrá sinni að byggja nýja slökkvistöð.
Í beinu framhaldi af samþykktri fjárhasáætlun 2018 skipaði þáverandi Framkvæmda og hafnarráð vinnuhóp skipuðum fulltrúum frá D og E lista, ásamt framkvæmdastjóra og slökkviliðsstjóra sem hafði það að markmiði að finna hentuga staðsetningu fyrir nýja slökkvistöð og skila inn tillögum til ráðsins.

Minnisblaði með nokkrum mögulegum staðsetningum þar sem taldir voru upp kostir og gallar hvers staðar var svo skilað inn til ráðsins en þegar hópurinn lauk störfum var hinsvegar orðið stutt til kosninga og því ákveðið að hugmyndum hópsins yrði vísað til nýs Framkvæmda- og hafnarráðs sem tæki til starfa eftir kosningar.
Það er skemmst frá því að segja að einhugur ríkti innan starfshópsins sem og nýja ráðsins um mikilvægi þessa verkefnis og hvaða staðarval væri heppilegast fyrir nýja slökkvistöð samkvæmt tillögum vinnuhópsins, framhaldið virtist því lofa góðu, og allir flokkar sammála en………….nei

Það sem helst var horft eftir m.t.t. staðarvals og réði úrslitum með umræddan stað var m.a.
• Miðsvæðis á eyjunni m.t.t. þjónustusvæðis þ.e. flugvöllur, höfn og allt þar á milli.
• Við stofnbraut og aðalgatnamót-gott aðgengi að og frá í allar áttir
• Á svæðinu er nú þegar iðnaðarhúsnæði (kyndistöðin)
• Nægt landrými

Áætlaður grunnflötur hússins er u.þ.b. 20 x 40 m sem er jafn breitt kyndistöð og tæplega helmingi lengra. Á massateikningu var áætluð mesta mögulega hæð hússins 9,5 m en í raunveruleikanum má gera ráð fyrir að hæðin verði ekki meiri en 7-8 m. Auk þess er reiknað með að húsið yrði grafið niður um c.a. 1-2 m svo hægt væri að aka beint út á Kirkjuveg. Í samanburði við þessar tölur þá er rétt að fram komi að lægri þekjan á kyndistöðinni er u.þ.b. 8 m og sú hærri u.þ.b. 11 m og þá eru reykháfarnir eftir. Það er því alveg á hreinu að slökkvistöðin yrði aldrei hærri en kyndistöðin og með útkeyrslu út á Kirkjuveg þá yrði hún a.m.k. 1-2 m lægri.
Hvað lengdina á húsnæðinu varðar þá, ef miðað er við að u.þ.b. 8 m séu á milli Kyndistöðvar og slökkvistöðvar, yrði austurendi slökkvistöðvar u.þ.b. í línu við innkeyrslu að Boðaslóð 27.
Það er því lítil sem engin hætta á því að umrætt húsnæði skyggi á t.a.m. Landakirkju eða yfir höfuð nokkuð annað í umhverfinu og var það m.a. einn af þeim þáttum sem skoðaðir voru í staðarvalinu.

Það er því miður allt of algengt að fólk láti sér nægja eina hlið á málum til að mynda sér skoðun á þeim og þannig virðist það einmitt vera eftir að þessi umræða fór í loftið.
Ég skal líka vera fyrstur til að samþykkja það að þær teikningar sem í framhaldinu fóru í loftið á eyjar.net eru mjög villandi fyrir þá sem ekki kunna að lesa rétt út úr þeim og gefa á engan hátt rétta mynd af því húsnæði sem hugmyndin er að þarna rísi, en þarna er um að ræða svokallaða massa teikningu sem einungis sýnir gróflega húsnæðið og skuggamyndun af því í umhverfinu. Það er því algjörlega fráleitt að halda það að svona verði endanlegt útlit hússin þ.e. stór,ljótur, grár kassi. Einfaldast og eðlilegast hefði verið að biðja um nánari útskýringar og eða betri teikningar til að átta sig betur á umfangi og útliti.
Það er heldur ekkert samasemmerki milli stálgrindarhúss og ljótleika. Stálgrindin er einfaldlega burðurinn í húsinu en hvað klæðningu og útlit varðar þá held ég að einu takmörkin á því séu hugmyndaflug og peningar.

Undirritaður hefur líka heyrt nokkrar ástæður þess að sumir telji umræddan stað ekki henta m.a. vegna þess að…
• Svæðið er skilgreint á nýju aðalskipulagi sem íbúðarsvæði
• Fellur ekki inn í umhverfið (sbr.svart/hvíta massateikningu)
• Skyggir á Landakirkju
• Veldur truflun við útfarir

Hvað fyrsta atriðið varðar þá er það vissulega rétt að samkv. nýju aðalskipulagi þá er þetta skilgreint sem íbúðarsvæði en á þessu íbúðarsvæði er og verður kyndistöðin, því verður ekki breytt. Svæðið er reyndar slitið í sundur í aðalskipulaginu með framlengingu á Höfðavegi að Skólavegi og finnst undirrituðum afar ólíklegt að einhver vilji byggja sér einbýlishús norðan við þann veg og við hliðina á kyndistöðinni, en hver veit. Auk þess er ekkert sem segir að ekki sé hægt að breyta aðalskipulaginu og svo deiliskipuleggja svæðið í framhaldinu með nýja slökkvistöð í huga. Almenn skynsemi ætti svo að geta svarað hinum þremur atriðunum.
Hvað aðrar staðsetningar varðar þá heyrist mér oftast vera nefnt það svæði sem við erum á í dag þ.e. í eða við Þjónustumiðstöð.
Þegar spurt er um rökin fyrir því að vera frekar þar þá er yfirleitt fátt um svör „af því bara“ „þið eigið bara að vera þarna“
Þarna er líka íbúðarbyggð, þetta er miðbærinn, hvort er betra að hafa slökkvistöð miðsvæðis í bæjarfélagi eða í miðbænum???
Þetta eru spurningar sem undirritaður velti líka fyrir sér þegar skoðaðar voru staðsetningar fyrir nýja stöð og lengi vel var ég alltaf á þeirri skoðun að við ættum að vera þar sem við erum í dag en þegar málið er skoðað aðeins betur þá er lítið vit í að vera með slökkvistöðina staðsetta í miðbænum, hún ætti að vera eins miðsvæðis í byggðarlaginu og mögulegt er.

Bara það að stefna um það bil 30. akandi slökkviliðsmönnum í forgangi á sama blettinn í miðbænum þaðan sem þeir þurfa svo að fara í forgangsakstri á fjórum 18 tonna bílum í gegnum miðbæjarumferð af bílum og fótgangandi fólki auk þess sem fara þarf í gegnum þröngar götur miðbæjarins til að komast t.d. í austurbæinn, er ekki gott.

Að lokum
Þetta er ekki bara eitthvað hús, bílapartasala eða skítugur iðnaður, þetta er þjónustustofnun í bráða- og öryggisþjónustu við bæjarbúa, þetta er samfélagsverkefni og við eigum að geta sameinast um það að búa vel að allri okkar bráðaþjónustu og sjá til þess að hún sé vel mönnuð og tækjum búinn til þess að takast á við þau verkefni sem hún fær upp í hendurnar, við erum á eyju, það er enginn annar að fara að koma og redda okkur.
Í flest öllum sveitarfélögum eru slökkvistöðvar með snyrtilegustu stofnunum, það sama á einnig við hjá okkkur og þó svo að núverandi húsnæði sé orðið lúið þá er þetta og verður ávallt með snyrtilegustu stofnunum bæjarins, og ónæði af hlutastarfandi slökkviliði með c.a. 12. útköll á ári???
Þetta hús á heldur ekki að vera „bara einhverstaðar“. Í hlutastarfandi liðum eins og hjá okkur, þar sem menn eru ekki á föstum vöktum á stöðinni, skiptir hver mínúta máli sem og öryggi slökkviliðsmanna og annara vegfarenda þegar menn þurfa að koma sér með hraði á og frá slökkvistöð.
Þó svo að undirritaður sé ekki hlutlaus í skoðunum á þessu máli þá myndi ég nú samt telja það að hafa slökkviliðið sem nágranna væri mikill kostur

Allir vilja hafa okkur en enginn kannast við okkur
Staðsetning slökkvistöðvar sem slík breytir samt engu um þörfina á húsnæðinu. Því vil ég biðla til almennings og ráðamanna um að halda ró sinni og láta teikna og hanna húsið sem við þurfum og eins og það raunverulega kæmi til með að líta út í umhverfinu. Ég er þess fullviss að fólk á eftir að líta þetta öðrum augum þegar teikningar af fallegri og snyrtilegri byggingu sem við getum verið stolt af, verða tilbúnar.
Verum ekki á móti bara til að vera á móti.

Með vinsemd og virðingu.
Friðrik Páll Arnfinnsson
Slökkviliðsstjóri