Eyjamenn tryggðu sæti sitt í efstu deild á næsta tímabili í dag með góðum sigri á nýkrýndum Bikarmeisturum Stjörnunnar á Hásteinsvelli í dag. Um leið gerðu þeir svo gott sem út um íslandsmeistaradrauma Stjörnumanna.

Stjarnan komst yfir á 23. mínútu þegar Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, felldi Guðjón Baldvinsson inn í teig Eyjamanna. Hilmar Árni Halldórsson skoraði örugglega úr vítaspyrnunni og þannig stóð í hálfleik.

Á 62. mínútu jöfnuðu Eyjamenn þegar fyrirliðinn Sindri Snær Magnússon skoraði. Sex mínútum síðar kom Víðir Þorvarðarsson, ÍBV yfir með frábæru skoti rétt utan vítateigs. Lokatölur 2-1.

Þetta var síðasti heimaleikur ÍBV í sumar og jafnframt síðasti heimaleikur Gunnars Heiðars Þorvaldssonar. Hann hefur hefur tekið þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna. Gunnar á að baki 148 leiki með ÍBV og 62 mörk.

ÍBV sækir Grindavík heim í lokaumferð Pepsi-deildarinnar á laugardaginn kl. 14.00.