„Það er ekkert til í þessu,” sagði Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands í samtali við Fótbolta.net, þegar hann var spurður út í kjaftasögur í Pepsi-mörkunum í gær, en þar var Heimir orðaður við þjálfarastöður hjá ÍBV og KA.

Heimir hætti sem þjálfari íslenska landsliðsins í júlí og hefur fengið talsvert af fyrirspurnum erlendis frá síðan þá. Áhugi hans liggur í að taka við félagsliði erlendis.  „Planið er að vera tilbúinn í eitthvað um áramótin eða eitthvað svoleiðis. Ég er að halda mig við það plan sem ég setti mér. Ég er að fara á námskeið og læra. Ég er líka með fyrirlestra og er að reyna að samtvinna þetta,” sagði Heimir

„Mig langar að fara í félagsliðafótbolta aftur. Þá þarf maður smá undirbúningstíma. Það er svolítið mikið öðruvísi en að vera með landslið. Það sem ég geri, ég vil gera það vel.”