Nú líður að lokum mak­rílvertíðar og nálgast heildaraflinn þann kvóta sem var gefinn upp fyrir árið. Útgerðir mega samt sem áður flytja 10% af aflaheimildum yfir á næsta ár. Ísfélgið og Vinnslustöðin hafa klárað sínar makrílvertíðir.

Ísfélagið kláraði makrílvertíðina í síðustu viku, sagði Eyþór Harðarson útgerðastjóri Ísfélagsins. „Ísfélagsskipin hafa landað um 16.000 tonnum af makríl og kláruðum við makrílvertíðina í síðustu viku. Nú eru uppsjávarskipin að hefja veiðar í norsk íslensku síldinni og er Sigurður að landa fyrsta farminum á Þórshöfn. Síldin er að veiðast þessa dagana í eða útaf  Héraðsflóanum og er Þórshöfn vel staðsett gagnvart þeim veiðum. Ísfélagið á um 15.000 tonn af ní síldinni og áætlum við að það klárist í október.“

Mynd/ Óskar Pétur Friðriksson

Vinnsla kláraðist í morgun
Hjá Vinnslustöðinni kom Kap með síðasta makrílfarminn úr Smugunni á laugardagsmorgun. „Vinnsla kláraðist núna snemma í morgun. Ísleifur fór svo á síld seinnipart laugardags og lagði af stað heim af miðunum í morgun, verður hérna á þriðjudagsmorgun,“ sagði Sindri Viðarsson hjá Vinnslustöðinni í samtali við Eyjafréttir.