Það var ánægjulegt skref fyrir fjölskyldufólk þann 1. janúar 2017 þegar frístundastyrkur varð í boði fyrir íbúa í Vestmannaeyjum. Þá voru reglur um aldursviðmið 6 – 16 ára. Nú hefur verið samþykkt tillaga að breytingum hjá fjölskyldu- og tómstundaráði að færa aldursviðmiðið úr 6 ára niður í 2 ára. Þetta gerir foreldrum yngri barna kleift að geta nýtt styrkinn. Þessar breytingar taka gildi á þessu ári og geta því foreldrar þessa aldurshóps sótt um styrk fyrir þetta ár.

Vonast er til að með þessum breytingum verði meiri hvati fyrir samstarfsaðila til þess að bjóða upp á skipulagt íþrótta- eða tómstundastarf fyrir þennan aldur. Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi getur haft veigamikil forvarnaráhrif og því gott að byrja snemma að tileinka sér slíka iðju.

Úrbætur á frístundastyrknum voru á stefnuskrá beggja flokka í meirihlutanum. Þar komu fram hugmyndir um að breyta aldursviðmiðum, hækka styrkinn og einfalda umsóknarferlið. Við teljum þarna eitt skref fram á við vera komið í þessum málum og er stefnan að halda áfram að bæta styrkinn á þessu kjörtímabili.

Fulltrúar meirihlutans í fjölskyldu og tómstundaráði eru ánægð að geta tekið þátt í jákvæðum breytingum sem þessum. Að lokum þá hvetjum við foreldra til þess að nýta styrkinn.

Helga Jóhanna Harðardóttir
Hrefna Jónsdóttir
Haraldur Bergvinsson