Þóranna M. Sigurbergsdóttir

September síðastliðinn var auglýstur sem  plastlaus mánuður.  Hér var um árvekniátak að ræða, að   vekja okkur til umhugsunar um yfirflæði og skaðsemi plastnotkunar.  Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir  voru hvattir til að draga úr plastnotkun. Sjálf reyndi ég að vinna með og á leikskólanum settum við m.a. dagblöð í stað plastpoka í ruslafötur. Undanfarið hafa Líknarkonur saumað marga taupoka ( tvö þúsund) sem hægt er að fá lánaða í nokkrum verslunum. Plastnotkun er ein mesta umhverfisógn í heiminum í dag. Einstaklingar, sem og þjóðir hafa mikið að segja í þessum málum.

Afríka, þessi stóra og undarlega heimsálfa hefur verið fórnarlamb plastmengunar. Ég hef verið í Burkina Faso og í Kenía og víða voru hrúgur af ónýtu plasti við vegi og göngustíga. Núna fer ég aftur í  Kenía og mér fannst göturnar mun hreinni. Við hjónin fórum í stórmarkað og þar voru ekki plastpokar í boði. En fyrir þremur árum var dælt út plastpokum við kassann. Hér erum við að hjálpa til og heimsækja samtök sem starfrækja skóla, heimili fyrir börn, kvennaathvarf og fleira. Einn daginn ætluðum við hjónin að fara með föt frá gistihúsinu og ganga niður í skóla. Við vorum tilbúin að ganga af stað og settum dótið í plastpoka, þá kom unga konan (vinnukonan) á gistiheimilinu, hlaupandi til okkar og sagði að við mættum ekki láta sjá okkur úti með plastpoka, fangelsun.  Ég hélt í fyrst að hún væri að grínast. En hún tjáði okkur að fyrir ári síðan hefðu verið sett  lög í landinu sem bönnuðu plastpoka og það er refsivert að vera með plastpoka á almannafæri. Hún lánaði okkur margnota poka, en við vorum einnig með þannig poka með okkur. Þegar við komum á leiðarenda og minntumst á þetta þá var fólk mjög alvarlegt og sagði okkur að það væri allt að 4 milljón króna sekt  við plastpokanotkun og síðan hafa fleiri minnst á þessa upphæð. En hér dettur engum í hug að láta sjá sig með plastpoka. Yfirvöld ætla að halda áfram að útrýma plasti í landinu, framundan er að eiga við drykkjarílát og svo áfram. Keníabúar eru yfir 45 milljónir og ef það er hægt að stöðva plastpokanotkun hjá svo fjölmennri þjóð þá ætti það að vera auðvelt fyrir okkur á Íslandi og í Vestmannaeyjum að minnka plastnotkun. Það er spurning hvort það verði alvöru árangur nema það sé gert refsivert að vera með plastpoka. Ég mun hugsa mig um tvisvar áður en ég nota plastpoka á almannafæri.