Þeim fjölgar stöðugt tækjunum á heimilinu sem tengd eru internetinu. Það er því mikilvægt að nettenging heimilisins sé góð. Undanfarin ár hafa gæði tengingarinnar í Eyjum verið svona upp og ofan og misgóð eftir hverfum. Það hefur þó hingað til litlu skipt hjá hverjum þjónustan hefur verið keypt því um sömu línurnar hefur verið að ræða. Nú ætlar Nova hins vegar að blanda sér í málið og bjóða upp á netþjónustu á heimili í Vestmannaeyjum með „hraðasta farsímaneti á Íslandi.“

„Vestmannaeyjar eru í dag alfarið keyrðar á 4,5G sendum, sem er nýjasta kynslóð farsímasenda. Eyjarnar eru því í dag með mestu mælanlegu afkastagetu þegar kemur að þráðlausum fjarskiptum,“ sagði Benedikt Ragnarsson, yfirmaður fjarskipta hjá Nova. „Færa má líkur að því að ekkert bæjarfélag í heiminum hafi jafn góða tengingu til allra íbúa.“ Samkvæmt mælingum Speedtest.net þá býður Ísland neytendum upp á 6. hraðasta farsímanet í heiminum og þar fer Nova fremst í flokki.

Benedikt Ragnarsson, yfirmaður fjarskipta hjá Nova og Margrét Tryggvadóttir forsjóri taka á móti verðlaunum fyrir hraðasta netið, heimanet og farsímanet á Íslandi annað árið í röð núna í september.

„Á Þjóðhátíð á hverju ári hefur Nova sett upp búnað til að mæta afkastagetu sem nemur 17-20 þúsund manns fyrir gesti hátíðarinnar og íbúa Vestmannaeyja. Þetta árið var hins vegar farin sú leið að byggja kerfið varanlega upp með þeirri afkastagetu og því njóta íbúar þess nú allt árið um kring. 3 af 4 sendum Nova í Vestmanneyjum eru nú 4.5G sendar sem eykur afkastagetu nálægt fjörföldun á við venjulegan 4G sendi,“ sagði Benedikt. „Þetta þýðir fyrir notendur sem eru með nýlegan endabúnað, síma eða 4,5 G Box, geta átt von á að ná hraða allt að 600 mb/s til sín við góðar aðstæður og 60 mb/s frá sér.“

Aðspurður hvort farsímanet Nova væri nógu öflugt til að keyra internetþörf heimilisins sagði Benedikt það vel vera. „Afkastageta og hraði kerfisins er mun meira en þarf til að mæta allri netnotkun venjulegs heimilis. Sem dæmi má nefna að notandi sem er að horfa á Full HD sjónvarpsefni um internetið notar að meðaltali 5 mb/s. Það er því frábær valkostur að nýta 4.5 G á farsímaneti í stað hefðbundinnar heimatengingar,“ sagði Benedikt og bætti við. „Hjá Nova er líka vel fylgst með afkastagetu og á álagssvæðum hefur verið brugðist við henni í tíma og kerfin stækkuð og stillt þannig að allir njóti gæða kerfisins.“

Benedikt vildi að lokum benda fólki á að notendur geta sjálfir mælt hraða kerfisins t.d. á vefsíðunni www.speedtest.net. „Við óskum notendum Nova í Vestmannaeyjum til hamingju með að vera með mestu afkastagetu í heimi þegar kemur að þráðlausum fjarskiptum,“ sagði Benedikt