Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um beiðni eins stjórnarmanns um samþykki eigenda Herjólfs ohf. (Vestmannaeyjabæjar) fyrir því að fá að ganga úr stjórn, og sjónarmið sem þeirri beiðni fylgdi, vill stjórn Herjólfs ohf. taka fram að henni finnst miður að stjórnarmaðurinn vilji stíga frá borði nú á þessum tímapunkti í því mikilvæga verkefni sem stjórninni hefur verið falið. Vill stjórnin þakka fyrir samstarfið og óskar viðkomandi velfarnaðar.

Af þessu tilefni vill stjórn félagsins þó koma á framfæri sjónarmiðum, í samskonar formi og þær voru sendar bæjarstjóra í tölvupósti og hafa birst í fjölmiðlum, lið fyrir lið, svo leiðrétta megi og skýra rangfærslur sem þar er að finna.

* Umræddur stjórnarmaður kvartar yfir því að hafa ekki náð sambandi við stjórnarformann á síðustu tveimur vikum. Má þá benda á að í vikum 39 og 40 var stjórnarformaður annars vegar erlendis og hins vegar viðstaddur andlát og við undirbúning útfarar föður síns, en hann lést þann 22. september sl. Engir fundir voru haldnir af hálfu stjórnarformanns og/eða samtöl tekin um einstök málefni á þeim tíma umfram það sem ekki gat beðið. Þessari stöðu hefði umræddur stjórnarmaður mátt sýna meiri skilning.

* Frá upphafi hefur verið til staðar framkvæmdastjórn innan stjórnar félagsins sem sinnti helstu verkefnum þar sem félagið hafði lengi vel ekki starfsmann til að sinna daglegum verkefnum. Þeir sem sitja í framkvæmdastjórn hafa aldrei þegið laun frá félaginu, hvorki sem stjórnarmenn né vegna starfa sinna í framkvæmdarstjórn. Á fundi framkvæmdastjórnar með nýráðnum framkvæmdastjóra voru kynntar ákvarðanir stjórnar og þau verkefni sem ráðast yrði í án tafar, en framkvæmdastjórinn var ráðinn til starfa frá og með 1. okt. að telja. Það var því eðlilegt að framkvæmdastjórn fundaði með nýráðnum framkvæmdastjóra og ekki rétt að gera athugasemdir við það.

* Á fundi framkvæmdastjórnar með nýráðnum framkvæmdastjóra var ákveðið að hann færi til Vestmannaeyja sem fyrst og hitti þar aðra stjórnarmenn. Það hefur hann þegar gert. Umræddur stjórnarmaður gat ekki hitt hann á þeim tíma.

* Þeirri hugmynd umrædds stjórnarmanns um að ráðinn yrði nýr starfsmaður við hlið framkvæmdastjóra, þegar eftir ráðningu hans án samráðs, eins og stjórnarmaðurinn gerði kröfu um var eðlilega hafnað. Slík ráðning hefði verið í andstöðu við stefnu stjórnar um ráðningar í störf fyrir félagið og hefði án efa verið túlkuð sem vantraust á nýráðinn framkvæmdastjóra. Það er framkvæmdastjóra að ráða almennt starfsfólk til félagsins, ekki stjórnar. Þá liggur fyrir að umrætt sinn aðeins var auglýst eftir umsóknum í starf framkvæmdastjóra – ekki í önnur störf. Af þessum sökum var hugmyndin um

að ráða strax nýjan starfsmann við hlið framkvæmdastjóra, án auglýsingar, fráleit.

* Framkvæmdastjóri mun gera tillögu að skipuriti félagsins sem síðan verður yfirfarin og samþykkt í stjórn félagsins.

* Allar fundargerðir félagsins hafa verið samþykktar og birtar. Engin vandkvæði hafa verið því tengdu og því vandséð hvert vandamálið er varðandi þann þátt.

* Allir stjórnarmenn hafa haft aðgang að öllum gögnum félagsins frá upphafi. Fullyrðingar um annað eru rangar.

* Bæjarráð hefur í nokkrum tilvikum óskað eftir því við stjórnarformann og/eða einstaka stjórnarmenn, að fá frá þeim punkta um stöðu mála. Þeir hafa ætíð verið sendir bæjarráði. Þeir hafa falið í sér upplýsingagjöf um stöðu mála hverju sinni. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við þá punkta, hvorki fyrr né síðar.

* Umræddur stjórnarmaður, ásamt tveimur öðrum, voru skipaðir í valnefnd vegna ráðningar framkvæmdastjóra félagsins. Niðurstaða þeirrar nefndar var að þrír umsækjendur fengu að kynna sig fyrir stjórninni. Af þeim mættu aðeins tveir. Fullyrðingar stjórnarmannsins um vantraust í sinn garð eða fleiri vegna þessa ferils eru fráleitar og bersýnilega rangar.

* Sigurvin Ólafsson er ekki í stjórn félagsins – fullyrðing stjórnarmannsins um það er röng. Við brotthvarf verkefnastjóra síðla síðasta sumars lá fyrir að félagið hefði engan starfsmann. Af þeim sökum var ákveðið á stjórnarfundi að heimilt yrði að leita til Sigurvins með einstaka verkefni, sem ekki gætu beðið, þar til nýr framkvæmdastjóri yrði ráðinn, þar sem mikil þekking er þegar til staðar hjá honum varðandi félagið. Um þetta var bókað sérstaklega í fundargerð stjórnar sem birt er opinberlega. Þetta fyrirkomulag sparaði félaginu talsverða fjármuni í stað þess að ráðast í það að ráða framkvæmdastjóra tímabundið. Nú hefur framkvæmdastjóri verið ráðinn til félagsins og mun hann stýra því hvert tiltekin verkefni fara. Stjórn félagsins kemur ekki að því.

* Samþykkt var síðla sumars að ráða þrjá skipstjóra til félagsins. Við ráðningu þeirra var ráð fyrir því gert að þeir myndu hefja störf þegar í október 2018 eða jafnvel fyrr, þar sem skipið átti að koma á þeim tíma. Ráðning Sigmars er frá 1. okt. í samræmi við fyrri áætlanir, en komu skipsins hefur þó seinkað. Einn þeirra skipstjóra, sem ráðinn var, óskaði eftir því að fá að halda áfram núverandi starfi í einhvern tíma áður en hann kemur til liðs við félagið.

* Umræddur stjórnarmaður hefur ekki gert athugasemdir við störf stjórnar á fundum hennar.

* Stjórnin væntir þess að hún fái nú frið til að vinna að því mikilvæga verkefni sem henni var falið og gerir ráð fyrir því, fallist eigandi á úrsögn stjórnarmannsins, þá taki varamaður sæti í stjórn.

Stjórn Herjólfs ohf