Hópurinn sem hugðist halda tónleika til heiðurs Fleetwood Mac á Háaloftinu annað kvöld, föstudagskvöldið 12. október hefur ákveðið að aflýsa tónleikunum. Ástæðan er afar dræm forsala aðgöngumiða.

„Við höfum haldið tónleika sem þessa víða um land á undanförnum árum, nær undantekningalaust fyrir fullu húsi. Okkur langaði mikið að bjóða Eyjamönnum uppá þessa tónleika en af forsölu aðgöngumiða að dæma stefndi allt í að enginn listamannanna fengi laun fyrir vinnu sína, þvert á móti sætu þeir eftir með tap af tónleikahaldinu. Við slíkar aðstæður er auðvitað betur heima setið,” sagði Eiður Arnarsson, Eyjamaður og bassaleikari í hópnum.

Það er ekki sjálfsögð ákvörðun að hópur sem þessi haldi tónleika í Vestmannaeyjum. Ferðalög eru tímafrek og jafnvel óljóst við hvaða höfn þarf að miða samgöngur. Kostnaður við tónleikahald í Eyjum er síst minni en annars staðar af augljósum ástæðum.

„Sala aðgöngumiða á tónleika í Vestmannaeyjum er svo annar óvissuþáttur sem margir hafa brennt sig á en að sumu leyti er erfiðasti þátturinn hve dræm forsala miða er gjarnan í Eyjum. Sú þróun hefur átt sér stað víðast hvar á undanförnum misserum að langstærstur hluti aðgöngumiða á tónleika selst í forsölu. Gildir þar einu hvort um er ræða stóra eða smærri tónleika nánast hvar sem er á landinu,” sagði Eiður. Þegar kemur að forsölu aðgöngumiða virðast Eyjarnar oft vera sér á báti því ósjaldan hefur aðeins lítill hluti aðgöngumiða selst í forsölu á tónleika í Eyjum. „Það er ekki annað hægt en að líta svo á að forsala sé vísbending um áhuga almennings á tónleikunum og ef forsala er dræm þá virðist áhuginn lítill. Þegar þannig er í pottinn búið er því betra að sitja heima en að verja sólarhring í ferðalög og vinnu til þess eins að “borga með sér”. Okkur þykir þetta leitt,” sagði Eiður sem vildi nota tækifærið og þakka þeim áhugann sem þegar hafa keypt miða.

Tix.is mun endurgreiða kaupin beint á greiðslukortið sem notað var til kaupana. Þeir sem keyptu miða í Tvistinum í Eyjum fá miðann endurgreiddan þar.

Það verður að segjast að það er mikill missir fyrir Eyjarnar að verða af slíkum tónleikum með sérvalin mann í hverju rúmi. Það sorglega er að þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist og ef þessi þróun heldur áfram hættir tónlistarfólk væntanlega að koma til Eyja með tónleika sína.