Dóra Björk Gunnarsdóttir sagði sig úr stjórn Herjólfs í gær, en þar gengdi hún varaformennsku. Dóra Björk sagði að alltof fáir fundir og lélegt upplýsingaflæði sé ástæða úrsagnar.

„Ég sendi þennan tölvupóst í gær á eiganda Herjólfs Ohf, formann stjórnar og formann bæjarráðs. Hér fer ég yfir mína upplifun af því að sitja í stjórn Herjólfs Ohf.

Ég hef einnig heyrt því fleygt eftir að ég skrifaði þetta bréf að búið sé að tryggja þá starfsmenn sem eru að vinna fyrir okkur í Póllandi. Ég hef tekið út nöfn hlutaðeiganda hér að neðan og breyttist textinn aðeins við það miðað við það sem ég sendi frá mér í gær.

Ég vil upplýsa ykkur öll um það að ég er mjög ósátt við vinnubrögðin í stjórn Herjólfs Ohf og sé ekki fram á að geta unnið við þessar aðstæður. Samskiptin innan stjórnar eru lítil sem engin, allt of fáir fundir og léleg upplýsingagjöf til okkar sem erum ekki í framkvæmdanefndinni. Hér að neðan er punktar máli mínu til stuðnings.

·       Ég sendi póst á stjórnarformann í viku 39 þar sem ég bað um að fá að heyra í honum varðandi samskipti í stjórninni og skipulagið en hef ekkert heyrt frá honum.
·       Ég veit að framkvæmdastjórinn okkar átti að hefja vinnu í viku 40 og heyrði ég í honum í þeirri viku til að kanna hvort einhver hafi verið í sambandi við hann. Sagðist framkvæmdastjóri hafa fundað 2. október með framkvæmdanefndinni til að fara yfir fyrstu skrefin. – Ég hefði talið að við í stjórninni ættum að hafa eitthvað um það að segja hver hans fyrstu skref ættu að vera.
·       Ég reyndi að hringja í stjórnarformann í viku 40 en fékk engin viðbrögð.
·       Ég átti samtal við stjórnarformann strax eftir að sameiginleg ákvörðun var tekinn um ráðningu framkvæmdarstjóra félagsins. Ég fór yfir áhyggjur mínar varðandi það að missa mikla þekkingu út úr rekstrinum þar sem fyrirséð væri að  framkvæmdarstjórinn og sá skipstjóri sem starfaði með þessum aðilum yrðu ekki áfram og því færi mikil þekking út úr rekstrinum ef að afgreiðslustjórinn færi líka. Nefndi ég hvort að ekki væri gott að tryggja krafta afgeiðslustjórans áfram með nýjum framkvæmdarstjóra. Stjórnarformaður ætlaði að hugsa þetta mál og þegar ég kallaði eftir niðurstöðu frá honum fékk ég m.a. þau svör að hann tæki því illa ef ég væri að reyna að koma afgreiðalustjóranum  í vinnu vegna pólitíkur, benti hann mér á það að hún hefði starfaði fyrir H listann í kosningunum í vor.
·       Ég hef nefnt það að ég tel að stjórn félagsins þurfi að búa til drög að skipuriti fyrir félagið en hafa menn ekki talið það tímabært og nefnt að það sé í höndum framkvæmdastjóra sem ég tel ekki vera góð vinnubrögð.
·       24. september sendi ritari stjórnar fundargerð síðasta fundar, sem var 17. september, á okkur og komu viðbrögð við henni núna í þessari viku þrátt fyrir ítrekun ritari. Þessi vinnubrögð eru ekki í takt við það sem búið er að biðja okkur að starfa eftir þ.e. að fundargerðir séu til birtingar innan nokkurra daga eftir fund. Ég sendi athugasemd eftir lesturinn og voru það lengi vel einu viðbrögðin.
·       Ég hef kallað eftir í nokkur skipti hver séu okkar næstu skref og látið í ljós að ég sé tilbúin í að taka að mér einhver verkefni en framkvæmdarstjórnin lítið verið að deila þeim verkefnum sem liggja fyrir.
·       Stjórnarmenn og varamenn hafa ekki fengið öll lögfræðibréf né önnur gögn s.b. samninginn við Vegagerðina sem hlýtur að vera skjalið sem við eigum að vinna eftir.
·       Ég hef gagnrýnt það að verið sé að senda punkta á bæjarráð varðandi Herjólf Ohf án þess að kynna þá fyrir stjórnarmönnum fyrst.
·       Ég hef gagnrýnt það að mér fannst ekki ríkja traust varðandi störf valnefndar sem var skipuð að stjórn Herjólfs Ohf varaðndi ráðningu framkvæmdastjóra en fékk ég útskýringu varðandi það frá hlutaðeigendum.
·       Ég skil ekki hvaða hlutverk starfsmaður lögmannsstofunnar Bonafide hefur í stjórn Herjólfs Ohf og tel það ekki samræma almennu siðferði stjórnar að fyrirtæki  stjórnarmanna séu að vinna fyrir félagið.
·       Ég hef spurt um hvort ekki þurfi að funda með stéttarfélögum til að ganga frá samningum við áhöfn og hef fengið þau svör að það sé ekki þörf á því fyrr en framkvæmdastjóri komi til starfa, hef ég heyrt af því að starfsmenn okkar sem eru erlendis séu þar samningslausir og því ótryggðir sem er ekki í takt við það sem okkur hefur verið kunngert í stjórninni.
·       Ég las í pósti frá stjórnarformanni í gær að búið sé að ganga frá ráðningu á einum skipstjóra og að hann sé í vinnu frá 1. okt og búið sé að fela honum ákveðin verkefni – þetta er ekki gert með samþykki stjórnar.
Ég á erfitt með að vinna með fólki þar sem vinnubrögðin eru eins og ég nefni hér að ofan og óska því eftir því við eigendur Herjólfs Ohf að fá að ganga út úr stjórninni hið fyrsta.“

Dóra Björk vildi ekki tjá sig frekar um málið þegar Eyjafréttir höfðu samband.