Miðasala á hina árlegu Eyjatónleikar í Eldborgarsal Hörpu hófst nú í morgun á tix.is og harpa.is. Tónleikarnir verða haldnir laugardaginn 26. janúar næstkomandi. Yfirskrift tónleikana þetta árið er Sólbrúnir vangar.

Þetta verður í áttunda skipti sem Eyjamenn og vinir þeirra koma saman í Eldborgarsal Hörpu til að hlusta á Eyjaperlurnar. Allt hófst þetta í aldarminningu Oddgeirs Kristjánssonar árið 2011.

Lög Oddgeirs við texta vina hans, Lofts, Árna og Ása hafa alltaf verið fyrirferðamikil og svo verður einnig nú, því ein ástsælasta söngkona okkar Íslendinga til áratuga, Svanhildur Jakobsdóttir, mun koma fram og syngja lög Oddgeirs. Enda má segja að plata Ólafs Gauks, 14 Þjóðhátíðarlög Odddeirs Kristjánssonar, frá árinu 1968, hafi komið Oddgeiri og lögum hans fyrir alvöru á kortið og gert mörg þeirra að sannkölluðum dægurlagaperlum.

Til viðbótar við Svanhildi munu Jóhanna Guðrún, Jónsi, Eyþór Ingi, Páll Rósinkrans, Kristján Gísla og Alma Rut flytja Eyjalögin í Hörpu, við undirleik stórhljómsveitar undir stjórn Þóris Úlfarssonar, sem leikur á hljómborð, en aðrir í hljómsveitinni eru Eiður Arnarsson á bassa, Birgir Nielsen Þórsson á trommur og slagverk, Kjartan Valdemarsson á hljómborð og harmonikku, Jón Elvar Hafsteinsson á gítar, Ari Bragi Kárason á trompet, Sigurður Flosason á saxafón, flautur og slagverk og Unnur Birna Björnsdóttir á fiðlu ásamt því að radda og syngja.

Það er því óhætt að segja að öllu sé tjaldað til, svo helstu dægurlagaperlur Eyjanna njóti sín í Eldborgarsal Hörpu þetta laugardagskvöld í janúar næstkomandi.? Hljómleikarnir hefjast klukkan 20.00

Eftir tónleikana verður barinn svo opinn og hittingur að hætti Eyjamanna fyrir utan Eldborg og ekki ólíklegt að það bresti á í söng og hver veit nema að hvíta tjaldið komi við sögu.