ÍBV tók á móti Valsstúlkum í Olís-deild kvenna í mjög sveiflukenndum spennuleik í kvöld.

Valsstúlkur byrjuðu betur og komust í 1:5 forystu eftir tíu mínútna leik. Eyjastúlkur unnu sig svo aftur inn í leikinn og var staðan 9:10 í hálfleik.

ÍBV jafnaði þá leikinn í upphafi seinni hálfleiks en Valsstúlkur tóku þá aftur við sér og skorðu næstu fjögur mörkin. Eyjastúlkur áttu þá frábæran kafla og komu sér aftur inn í leikinn og gott betur. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var ÍBV fjórum mörkum yfir 18:14.

ÍBV skoraði hinsvegar ekki mark síðustu tíu mínúturnar sem Valur nýtti sér vel og stálu stigi. En það var Eyjastúlkan og fyrrum leikmaður ÍBV, Sandra Erlingsdóttir sem skoraði lokamark leiksins og jafnaði fyrir Val af vítalínunni. Lokatölur 18:18.

Markahæst hjá ÍBV var Greta Kavaliuskaite með sex mörk. Aðrir markaskorarar voru Arna Sif Pálsdóttir (4), Ester Óskarsdóttir (3), Kristrún Hlynsdóttir (2), Sandra Dís Sigurðardóttir (1), Karólína Behrenz (1) og Ásta Björt Júlíusdóttir (1). Guðný Jenný Ásmundsdóttir var með 11 valin skot eða 39,3% markvörslu.

ÍBV situr því í þriðja sæti með 5 stig eftir fjórar umferðir. Næsti leikur stelpnanna er gegn Haukum í Hafnarfirði sá sunnudaginn klukkan 16.00.