Arnfinnur Friðriksson fæddist á Dalvík 22. Ágúst 1939.  Hann lést á hjartadeild Landspítalans 18. Ágúst 2018

Arnfinnur, eða Finnur eins og hann var alltaf kallaður  kom á vertíð til Vestmannaeyja aðeins 16 ára  gamall.   Í  Eyjum kynntist  hann verðandi eiginkonu sinni, Steinunni Pálsdóttur og gengu þau í hjónaband 29. Ágúst 1959.  Finnur og Steina eignuðust tvö börn, barnabörnin eru  sex og barnabarnabörnin fjögur.

Finnur gengdi ýmsum störfum á lífsleiðinni en lengst af starfaði hann sem bílstjóri hjá Skeljungi, var bifreiðaeftirlitsmaður og ökukennari.  Tónlistin var stór hluti á lífi hans og var hann einkar góður harmonikku- og orgelleikari.   Í mörg ár spilaði hann með hljómsveitinni Eymenn og síðustu árin var hann hluti af Blítt og létt hópnum sem heldur úti mánaðarlegum tónleikum yfir vetrarmánuðina.

Finnur var einn  af stofnendum Lionsklúbbs Vestmannaeyja 6. Apríl 1974.   Hann var alla tíð mjög virkur félagi og gengdi flestum trúnaðarstörfum hjá klúbbnum.  Hann var á þessum árum allavega 3 sinnum formaður,  ritari , gjaldkeri og var  eitt ár svæðisstjóri í umdæmi 109A

Finnur var ákaflega virkur í fjáröflunum klúbbsins í mörg ár og var söluhæstur ásamt félaga sínum Ágústi Pálmari Óskarssyni í mörg ár í hinni árlegu perusölu Lions.  Þeir félagar vöktuðu öll helstu fyrirtæki bæjarins og sáu um að ekki vantaði flúrperur í fiskvinnslusalina ogá  verkstæðin.  Þeir mokuðu út perum í brettavís með dugnaði sínum ár eftir ár.

Á þjónustudag Lions 8. Október ár hvert var það fastur liður að bjóða heimilisfólki Hraunbúða , heimili aldraðra í Vestmannaeyjum í rútuferð um Heimaey.  Oftast fékk Finnur rútu lánaða hjá Páli Helgasyni ferðamálafrömuði og var sjálfur ökumaður og leiðsögumaður.  Ferðin var alltaf enduð með því að fara á kaffihús og þá spilaði Finnur á harmonikkuna fyrir hópinn sem alltaf vakti jafn mikla lukku.

Á skemmtifundum og  vorferðalögum voru þau hjón Finnur og Steina  hrókar alls fagnaðar og alltaf var nikkan með og Eyjalögin  spiluð fram á nótt.

Við Lionsfélagar kveðjum góðan félaga í leik og starfi og sendum Steinu og fjölskyldu innilegustu samúðarkveðjur.

Sigmar Georgsson
Formaður Lionsklúbbs Vestmannaeyja