Dýpkunarmálin í Landeyjahöfn: Sporin hræða

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri

Bæjarfulltrúar allra lista hér í Eyjum hafa lýst yfir þungum áhyggjum vegna niðurstöðu í útboði Vegagerðarinnar á dýpkun í Landeyjahöfn næstu 3 árin. Lægsta tilboðið átti fyrirtæki sem sá um dýpkunina fyrir nokkrum árum – með umdeilanlegum árangri, svo vægt sé til orða tekið. Seint og illa gekk að opna höfnina á vorin og bilanir og frátafir voru tíðar. Sömuleiðis voru afköstin lítil, miðað við það sem við kynntumst síðar.  Þetta sést glöggt þegar borin eru saman gögn frá þessu tímabili við sambærileg gögn frá því dýpkunartímabili sem nú stendur yfir með öðrum verktaka.  Þetta vekur réttmætar efasemdir um það hvort lægsti tilboðsgjafinn nú hafi einfaldlega yfir að ráða þeirri tæknilegri getu og tækjakosti sem þarf til að sinna verkinu með fullnægjandi hætti. Vegna þessarar reynslu kom mér á óvart þegar ég las það í útboðsgögnum Vegagerðarinnar að tæknilegi þátturinn skyldi einungis vega 35% við mat á tilboðum – en verðið 65%. Þar var heldur ekki gerð krafa um afköst hvern dag sem hægt er að dýpka. Við sem búum hér vitum að tíminn sem tekur að opna höfnina hverju sinni skiptir afar miklu máli.

Í þessu ljósi óskaði ég eftir og fékk fund með vegamálastjóra í síðustu viku þar sem ég fór yfir söguna og reynsluna í þessum dýpkunarmálum. Þar lýsti ég ofangreindum áhyggjum okkar Eyjamanna. Vegamálastjóri sýndi þeim skilning og lofaði að fara yfir málið. Hún hét því jafnframt að við fengjum að fylgjast með framvindu málsins.

Því verður auðvitað ekki trúað að samið verði við verktaka um dýpkun Landeyjarhafnar nema að fyrst sé gengið úr skugga um það með óyggjandi hætti að hann hafi tæknilega burði og tækjakost til að sinna verkinu með viðunandi hætti.

Íris Róbertsdóttir