Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt áherslu á að bæta kjör eldri borgara. Liður í því hefur verið að fella niður fasteignaskatt fyrir 70 ára og eldri í Vestmannaeyjum. Með ákvörðun um niðurfellingu á beinum sköttum á fasteignir þeirra er í senn verið að draga úr þörfinni á dýrari úrræðum svo sem hjúkrunarrými, virða valfrelsi eldriborgara hvað búsetu varðar og virða þau sjálfsögðu mannréttindi eldriborgara að ráða sem mest sjálf sínum næturstað.

Embættismenn hafa frá upphafi reynt að draga þetta í efa
Ljóst hefur verið frá upphafi að ákveðnir stjórnmálamenn til að mynda á höfuðborgarsvæðinu hafa séð ofsjónum yfir því að niðurfelling eignarskatts á eldri borgara í Vestmannaeyjum hafi ekki verið tekjutengd. Á sama hátt hafa embættismenn reynt að draga í efa réttmæti þessarar ákvörðunar.

Bæjaryfirvöld hafa hingað til varið þennan rétt af mikilli einurð og ítrekað skilað inn áliti hvað þetta varðar. Þannig hefur verið varin sú prinsipp afstaða að tekjutengja ekki afsláttinn heldur líta á hann sem rétt allra eldri borgara.

Stefnubreyting H- og E-lista
Nú er hinsvegar að eiga sér stað algjör stefnubreyting í þessu máli og var lagt til á síðasta fundi bæjarráðs af fulltrúum H-lista og E-lista að hætta að fella niður fasteignaskatt á eldri borgara. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu áfram berjast fyrir þessu réttlætismáli. Það er galið að ríkisvaldið geti sagt að það sé skylda sveitarfélagsins að skattpína eldri borgara, það þarf að berjast gegn þessu óréttlæti.

Trausti Hjaltason bæjarfulltrúi