Eftir að niðurstaða kosninga lá fyrir í vor og myndaður var meirihluti án aðkomu míns flokks tók ég ákvörðun um að draga mig alveg í hlé frá umfjöllun um málefni Vestmannaeyjabæjar. Ég ákvað að gefa nýjum stjórnendum svigrúm til að taka við keflinu. Ég ákvað að verjast ekki árásum á mig persónulega né á störf mín heldur láta slíkt yfir mig ganga. Nú er þó því miður komin upp sú staða að ég get ekki setið hjá. Það er verið að svívirða saklausan mann.

Ósanngjarnar árásir á pólitískan andstæðing minn
Árásir núverandi stjórnenda Vestmannaeyjabæjar og fylgismanna þeirra á Lúðvík Bergvinsson eru í mínum huga fordæmalausar. Að birta valda reikninga úr bókhaldi hlutafélags og bæjarfélagsins með aðdróttunum um spillingu, gefa í skyn að brot hafi verið framið án beinna ásakana, brigsla, vefengja og rægja. Það er ljótur leikur og ég væri ekki sá maður sem ég vil vera ef ég stigi ekki fram honum til varnar, jafnvel þótt seint verðum við Lúðvík taldir samherjar í pólitík. Um stund meira að segja svarnir andstæðingar.

Einhugur um yfirtöku á rekstri Herjólfs
Ég ætla ekki að rekja hér þá forsögu sem var að stofnun Herjólfs hf. Hún er Eyjamönnum vel kunn. Eins og allir þekkja er yfirtakan á rekstri Vestmannaeyjaferju forsenda þess að Vestmannaeyingar geti tekið við og ráðið yfir lífæð sinni sem eru samgöngur á sjó milli lands og Eyja. Um þetta ríkti einhugur í seinustu bæjarstjórn og um þetta sameinuðust Eyjamenn á fjölmennum borgarafundi.

Gæfa að fá Lúðvík að starfinu
Það var gæfa Vestmannaeyjabæjar að strax í upphafi skyldum við fá meðal annarra gamlan pólitískan andstæðing minn til að koma að þessari vinnu. Þó ég hafi aldrei trúað því að ég ætti eftir að segja það, miðað við það sem á undan er gengið í okkar samskiptum, þá var innkoma Lúðvíks Bergvinssonar og þekking hans meðal þess sem skipti sköpum að samningar við ríkið tókust.

Orð okkar Stefáns
Mig grunar að það hafi ekki síst verið fyrir orð mín og Stefáns vinar mín Jónassonar að Lúðvík lét til leiðast að taka þessa vinnu að sér. Í ljósi þessara staðreynda hefur verið óbærilegt fyrir mig að sjá og lesa þau ljótu skrif sem birt hafa verið vegna starfa hans fyrir bæjarfélagið.

Illa vegið að manni sem unnið hefur að heilindum
Gerð hefur verið tilraun til að gera vinnu Lúðvíks og Bonafide í samningaviðræðum við ríkið fyrir bæinn ótrúverðuga, og jafnvel reynt að tengja hana við spillingu. Þannig hefur verið veist að manni sem unnið hefur af heilindum fyrir sínar heimaslóðir. Manni sem mikið hefur lagt á sig fyrir verkefnið og hvergi hlotið þær þakkir sem hann á skilið. Manni sem varið hefur hundruðum klukkustunda í vinnu fyrir samfélagið sitt, lánað aðstöðu og margt fl.

Hver er tilgangurinn?
Mér -eins og vonandi flestum- er ljóst að tilgangurinn með þessari framkomu í garð Lúðvíks er ekki að valda honum skaða. Skaðinn sem sannarlega hefur verið unnin er fórnarkostnaður sem gerendur telja réttlætanlegt. Vegið er meðvitað að mannorði hans með annað að leiðarljósi. Tilgangurinn er sá einn að skaða það verkefni sem Lúðvík leiðir nú um stundir sem er að taka yfir rekstur Herjólfs með hagsmuni okkar allra að leiðarljósi. Enginn önnur skýring er tæk. Hverra hagsmuna er þar gætt?

Gangið hreint til verks
Með orðum þessum vil ég skora á þá sem að stjórnmálastarfi í Vestmannaeyjum koma að staldra við og endurskoða þær aðferðir sem beitt er. Að leggjast ekki svo lágt að ráðast á manninn heldur ræða málefnin. Að ganga hreint til verka og veita málefnum forystu -eða jafnvel að hætta þeim- frekar en að skaða framgang þeirra með árásum á grandvart fólk sem ekkert vill með störfum sínum annað en vinna samfélagi okkar gott.
Mannorð eru hluti af mannhelgi. Að ráðast gegn því er aldrei réttlætanlegt. Hálfkveðnar vísur, rógburður og útúrsnúningur er ekki boðlegur fólki sem kosið hefur verið til ábyrgðastarfa. Það er kúnst að svívirða saklausan mann. Kúnst sem sumir kunna of vel

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,

og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur,
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,

en þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

Og segðu hann brotlegur sannlega er
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir,
en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.

Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,
með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þú fáir náð,
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,
en máske að þú hafir kunnað þau áður.

Pál J. Árdal.

Elliði Vignisson
Fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum