ÍBV heimsótti Akureyri í 6. umferð Olís-deildar karla í dag í bráðskemmtilegum leik þar sem bæði lið þurftu virkilega á sigri að halda.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur í fyriri hálfleik. Eyjamenn byrjuðu betur en Akureyringar tóku þá við sér og komust yfir. Góður endasprettur ÍBV tryggði þeim svo 13:16 forystu þegar gengið var inn í hálfleik.

Sveiflan hélt áfram í síðari hálfleik. Akureyringar byrjuðu betur og komu sér strax inn í leikinn. Jafnræði var þá með liðum þar til um tíu mínútur voru eftir að Eyjamenn stungu einfaldlega af.

Kolbeinn Aron Ingibjargarson einfaldlega lokaði marki Eyjamanna og skoruðu heimamenn ekki mark á síðustu níu mínúum leiksins. Lokatölur Akureyri 22 – ÍBV 29.

Kolbeinn Aron varði samtals 20 skot í marki Eyjamanna. Markahæstur í liði ÍBV var Kári Kristján Kristjánsson með 10 mörk, þar af 4 úr víti. Aðrir markaskorarar voru 7 – Fannar Þór Friðgeirsson (7), Theodór Sigurbjörnsson (4), Sigurbergur Sveinsson (3), Kristján Örn Kristjánsson (2), Elliði Snær Viðarsson (1), Daníel Örn Griffin (1) og Hákon Daði Styrmisson (1).

ÍBV situr í sjötta sæti deildarinnar eftir fimm umferðir með sex stig. Næsti leikur liðsins er í Eyjum mánudaginn 5. nóvember gegn Val.

mán05nóv18:30Olís-deild karla: ÍBV-Valur18:30