Nokkur orð um fasteignaskatt

Njáll Ragnarsson

Síðan á síðasta fundi bæjarráðs Vestmannaeyja hefur nokkur umræða skapast í bænum um fasteignaskatt eldri borgara. Bærinn hefur, allt frá árinu 2012, fellt skattinn niður fyrir íbúa 70 ára og eldri. Rökin fyrir þessu eru þau að eldri borgurum sé þannig skapaður hvati til að dvelja lengur í eigin húsnæði. Ekkert er nema gott um þetta að segja.

Nú vill svo til að ráðuneyti sveitarstjórnarmála hefur sent Vestmannaeyjabæ álit þess efnis að niðurfelling af þessu tagi sé ólögmæt. Slíkt samræmist ekki reglum um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts skv. lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Álitið er alveg skýrt: Vestmannaeyjabær hefur brotið lög með þessari aðgerð, allt frá árinu 2012.

Fyrir mína parta þá finnst mér það grafalvarlegt mál að sveitarfélagið sem ég bý í hafi orðið uppvíst af því að fara á svig við lög og reglur. Og álíka alvarlegt er þegar kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn tala með þeim hætti að þetta sé bara hið besta mál! En ekki eru nú alltaf allir sammála mér.

En hvað er til ráða?
Niðurstaðan í bæjarráði var eftirfarandi: „Framkvæmdastjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs verði falið að móta tillögur um breytingu á umræddum reglum þannig að þær komi til móts við örorku- og ellilífeyrisþega eins og unnt er (m.a. í gegnum viðmiðunartekjur) innan þeirra heimilda sem kveðið er á um í lögum um tekjustofna sveitarfélaga (m.a. að slíkur afsláttur nái til 67 ára og eldri, en ekki eingöngu 70 ára og eldri).

Þannig að það er algerlega skýrt að meirihluti bæjarstjórnar hefur fullan hug á að létta undir með eldri borgurum þannig að þeir geti búið sem lengst í eigin húsnæði. Það ætlum við að gera. Og í leiðinni ætlum við að virða þau lög sem gilda í landinu. Vegna þess að þetta tvennt getur farið saman, hvað sem hver segir.

Njáll Ragnarsson