Ekkert nothæft röntgentæki er til staðar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands  í Vestmannaeyjum þessa dagana. En tækið sem hér hefur verið og er síðan 2005, bilaði fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Myndlesarinn eða framköllunarvélin við röntgen tækið var í kjölfarið dæmdur ónýtur.

Í kjölfarið var fenginn að láni annar myndlesari en hann bilaði hinsvegar líka. „Sú óheppilega staða kom upp að myndlesarinn (framköllunarvélin) á röntgentæki HSU í Vestmannaeyjum bilaði í síðustu viku og hefur nú verið dæmdur ónýtur.Fenginn var annar lesara að láni í síðustu viku, sem bilaði einnig. Varahlutur var fenginn í hann erlendis frá, en við ísetningu hans kom í ljós að meira er bilað en áður hafði verið talið.” Segir í tilkynningu á heimasíðu HSU.

Þetta þýðir að ekki er unnt að nota röntgentækið í Eyjum. „Staðan er því þannig að það þarf að panta annan varahlut að utan og mun það ferli taka einhverja daga í viðbót. Af þessum sökum verður röntgentækið ekki í notkun næstu daga, en viðgerð verður flýtt eins og kostur er.”

Samkvæmt tilkynningu hefur framkvæmdastjórn HSU lagt fram beiðni til Velferðarráðuneytis um nauðsynlega endurnýjun á röntgentæki í Vestmannaeyjum.