Á fundi stjórnar Herjólfs ohf. á föstudaginn var samþykkt siglingaáætlun og gjaldskrá fyrir félagið sem tekur gildi þann 30. mars 2019, þegar félagið tekur yfir rekstur ferjunnar á siglingaleiðinni milli lands og Eyja.

Samkvæmt nýrri gjaldskrá er helmingi ódýrara fyrir heimamenn að sigla milli land og Eyja. Lúðvík Bergvinsson stjórnarformaður Herjólfs ohf. sagði í samtali við Eyjafréttir að gjaldskráin hefði verið byggð frá upphafi í samningaviðræðum þeirra við Vegagerðina og ríkið að Vestmannaeyjabær/Herjólfur ohf. myndi byggja gjaldskrá skipsins upp á þeirri meginreglu ESB um að heimilt sé að styðja við samgöngur íbúa í dreifðari samfélögum með þeim hætti sem hann birtist í gjaldskránni. „Reglan tekur eðli málsins samkvæmt til eyjasamfélaga þar sem íbúar eiga samgöngur að miklu leyti undir ferjusiglingum. Með reglu ESB  er verið að reyna að jafna aðstöðu íbúa hinna dreifðari byggða og eyjasamfélaga gagnvart öðrum landsmönnum vegna samgangna, einsog frekast er kostur,“ sagði Lúðvík.

Það verður aldrei fullt jafnvægi þarna á milli en reglan er tilraun til að jafna aðstöðuna. „Allt frá upphafi hafa rekstraráætlanir félagsins byggst á því að þessi nálgun yrði viðhöfð varðandi uppbyggingu gjaldskrárinnar, og hún þannig kynnt viðsemjendum okkar einsog áður segir. Heimildin er því byggð á reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu einsog áður segir og er ætlað að jafna lífsgæði íbúa, þegar kemur að samgöngum, ef þannig má að orði komast,“ sagði Lúðvík og bætti við að í samræmi við efni samnings bæjarins við ríkið þarf Vegagerðin að samþykkja gjaldskrána.