Þessi úrsögn mun ekki hafa nein áhrif á störf stjórnarinnar

Halldór Bjarnason hefur tilkynnt stjórnarformanni Herjólfs ohf. að hann biðjist lausnar sem varamaður í félaginu. Á föstudaginn fundaði stjórn Herjólfs og þar boðaði stjórnarformaður Birnu Þórsdóttur kjörinn varamann í stjórn félagsins sem nýjan stjórnarmann. Þetta var gert í samræmi við ákvæði í hlutafélagalögum um kynjahlutföll í stjórnum opinberra hlutafélaga. Ásamt Birnu var Halldór hinn varamaðurinn í stjórninni.

Lúðvík Bergvinsson stjórnarformaður staðfesti þetta og sagði í samtali við Eyjafréttir að þetta hefði ekki nein áhrif á störf stjórnarinna, „til skýringar var sú nýbreytni tekin upp á síðasta hluthafafundi í félaginu að kjósa varamenn í stjórn. Það hafði ekki verið gert áður. Stjórnin er fullmönnuð í dag samkvæmt lögum og samþykktum félagsins og því kallar þessi úrsögn ekki á neinar sérstakar aðgerðir. Stjórnin mun áfram sem hingað til einbeita sér að því að huga að hagsmunum samfélagsins og félagsins við undirbúning og yfirtöku á rekstri ferjunnar. Þessi úrsögn mun því ekki hafa nein áhrif á störf hennar. Það er þó rétt að fram komi að viðkomandi varamaður hefur aldrei setið stjórnarfund í félaginu og því sérstætt að í yfirlýsingu skuli hann lýsa yfir því sérstaklega að hann vilji ekki vinna með því fólki sem situr í stjórn. Vegna þessa kemur úrsögnin og forsenda hennar þó nokkuð á óvart.“

Mest lesið