Nýjasta tölublað Eyjafrétta komið út

Við förum um víðan völl í nýjasta tölublaði Eyjafrétta sem kemur út í dag. Meirihluti frétta sem skrifaðar eru þessa daganna snúa að Herjólfi ohf. Framkvæmdastjóri félagsins og stjórnin sendu frá sér siglingaráætlun og gjaldskrá á dögunum. Gjaldskráin hefur verið á milli tannanna á fólki og samkvæmt stjórnarformanni félagsins er ekki um neitt ólögmætt að ræða. Við tökum spjall við framkvæmdastjórann og segjum ykkur frá breytingunum sem hafa orðið af stjórn þessa félags.

En nóg um Herjólf og að veiðigjöldum, breytingar liggja fyrir á veiðigjöldum og haldið var áhugavert erindi í Þekkingarsetrinu á dögunum þar sem Daði Már Kristófersson talaði meðal annars um af hverju ætti að deila tekjum af veiðigjöldum og fleira.

Við förum svo á mannlegu nóturnar eftir því sem þú flettir blaðsíðum blaðsins. Að hafa heilsu er dýrmætt og nauðsynlegt, Hildur Sævaldsdóttir tók fyrri ári síðan ákvörðun um að gera eitthvað í sínum málum eins og hún sagði sjálf frá og fór í aðgerð sem heitir magaermi. Hún segir okkur frá öllu ferlinu á síðu átta. Talandi um heilsu að þá er október bleikur mánuður, helgaður baráttunni við krabbamein hjá konum. Öll þekkjum við einhvern sem hefur tekið slaginn og margir ganga í gegnum ferlið með einhverjum af sínu nánasta fólki. Einn af viðmælendum okkar í blaðinu er aðstandandi en eiginmaður hennar og mágkona, greindust með krabbamein.

Fleira efni má finna í blaðinu. Eins og til dæmis menning, listir, heimili, rokk og bakstur. Eins og við gáfum út frá upphafi breytinga á útgáfu Eyjafrétta þá ætlum við að gefa út blað að minnsta kosti einu sinni í mánuði. Þetta tölublað er hinsvegar númer tvö í október. Þann 28. nóvember mun Aðventublað Eyjafrétta líta dagsins ljós og svo er Jólablaðið okkar á sínum stað og verður það borið út 19. desember.

Góðar stundir
Sara Sjöfn Grettisdóttir,
ritstjóri Eyjafrétta