Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar í gær, miðvikudaginn 31. október, voru kynntar niðurstöður vinnuhóps um skipulag tjaldsvæða á Þjóðhátíð niðurstöður sýnar.

Hópurinn er skipaður er af Jónu Sigríði Guðmundsdóttur, Dóru Björk Gunnarsdóttur og Páli Scheving ásamt Ólafi Þór Snorrasyni framkvæmdastjóra sviðsins. Eftir að hafa fundað í tvígang leggur hópurinn tvennt til. Að tjaldsvæðaþörf verði mætt innan íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein og að suður af Týsheimili verði útbúin ný svæði með takmarkaða notkun.

Þessu voru fulltrúar D-lista, Margrét Rós Ingólfsdóttir og Eyþór Harðarsson ekki sammála og lögðu fram eftirfarandi bókun. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem komið hafa fram á fundinum hér í dag er kostnaður við gerð nýs tjaldsvæðis áætlaður á þriðja tug milljóna. Í þessu máli liggur fyrir að slétta þarf stórt svæði, koma fyrir góðri lýsingu, gæta að öruggri aðkomu viðbragðsaðila, tengja rotþrær og fleira. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki forsvaranlegt að útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum greiði fyrir gerð nýs tjaldsvæðis, sem nýta á í fimm daga á ári eins og fram kemur í niðurstöðu stýrihópsins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að hægt að finna aðrar lausnir til þess að leysa þetta verkefni sómasamlega án þessa gríðarlega tilkostnaðar. Því fylgir ábyrgð að fara með skattfé samborgara okkar og okkur finnst illa farið með fé bæjarbúa í þessu tilviki.”

Það fór því svo að ráðið samþykkti að senda málið aftur til vinnuhópsins.

Önnur mál á dagskrá voru til að mynda umsókn um byggingaleyfi að Stóragerði 4, bílageymslu við Vestmannabraut 56B og atvinnulóð í Ofanleiti.

Fundagerðina má lesa í heild sinni hér.