Safnahelgin hófst í gær með opnun ljósmyndasýningar Sigurðar A. Sigurbjörnssonar eða Didda Sig í anddyri safnsins. Diddi er fær ljósmyndari, með einstaklega næmt auga fyrir litríku landslagi Eyjanna. Sýningin verður opin alla helgina frá 13:00 – 17:00.

í dag er það uppskeruhátíð pysjueftirlitsins sem ríður á vaðið kl 15.00 í Sæheimum.  Þar verða sýndar ljósmyndir af bjargvættunum sem komu með pysjur til pysjueftirlitsins á árinu.

Ellý Ármanns í Einarsstofu
Í dag opnar einnig sjónvarpsþulan fyrrverandi, spákonan og listamaðurinn Ellý Ármanns  málverkasýningu í Einarsstofu kl. 18:00. Með í för verður maðurinn hennar, Hlynur Sölvi Jakobsson tónlistarmaður. Hlynur mun spila við opnun sýningarinnar en hann hefur gefið út þrjár plötur og má finna þær á Spotify.

Ellý segist aðspurð hafa málað og teiknað frá því hún man eftir sér. Hin síðari ár hefur hún lagt áherslu á kvenlíkamann með kolum sem og abstrakt myndir og nú nýverið blandað saman akrýl, olíu og kolum á striga. „Ég vona að Vestmannaeyingum þykir myndirnar ekki of djarfar, þær eru hugsaðar sem fallegar tjáningar um kvenlíkamann.“ Ellý er ættuð frá Eyjum, en föðurforeldrar hennar voru hjónin Ármann Friðriksson og Ragnhildur Eyjólfsdóttir á Látrum, Vestmannabraut 44. Ellý kemur með nýja sýningu til Eyja sem hún er að hamast við að klára. Sýningin er sölusýning og er opin alla helgina, 12-17.

Kristinn R. Ólafsson og Cubalibre sögur og tónar frá Kúbu
í kvöld er svo kúbanskt þema í Eldheimum. Hinn góðkunni fréttamaður og fararstjóri Kristinn R. Ólafsson mætir með nýju Kúbubókina sína. Bókin heitir Soralegi Havana þríleikurinn og er þýðing Kristins á verki kúbanska rithöfundarins Petro Juan Gutierrez. Þetta er mögnuð bók sem lýsir vel lífsbaráttunni á Kúbu, en þar er bókin bönnuð vegna ádeilunnar á ríkjandi ástand landsins. Texti Kristins er vandaður og verður mjög áhugavert að hlusta á hann lesa valda kafla og segja frá Kúbu, en þar er hann mjög kunnugur.

Til að ná enn frekar upp Kúbustemningu hefur verið sett saman splunkunýtt band Cubalibre, sem ætla að hita upp með nokkrum kúbönskum tónum. Dagskráin hefst kl. 20:30 í Eldheimum.