„Verkefnið er mjög skýrt og menn þurfa að vanda sig í ferlinu,“, sagði Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. í samtali við Eyjafréttir fyrir síðasta tölublað. Stjórn Herjólfs fundaði í lok október og þar greindi Guðbjartur frá þeim verkefnum sem hann hefur unnið að síðan hann tók við starfinu. Með fyrstu verkum Guðbjarts var að fara og hitta starfsfólk Herjólfs. Aðspurður um óvissu hjá starfsfólki sagði hann að það væri beggja blands sem væri eðlilegt. „Ég vildi fá að hitta starfsfólkið, kynna mig, upplýsa þau um stöðuna og láta þau vita hver næstu skref eru. Þarna er fólk sem er búið að sækja um og ég skil vel að fólki finnist óþæglegt að vita ekkert. Ég tel því að fundurinn hafi verið ganglegur og góður.

Ráðningarferlið hefur dregist sem helgast af því að afhending ferjunnar hefur seinkað. Jafnframt er ekki komin niðurstaða í mönnunarþörfina sem hafa tafið að einhverju leiti ráðningar. Ég geri ráð fyrir að á næstu vikum getum við klárað vinnu við ráðningarferlið. Vaktirnar verða tvískiptar en siglingaráætlun miðar við fyrstu ferð kl. 07:00 og síðasta ferð leggst að bryggju í Eyjum um miðnætti. Það þarf að gera ráð fyrir öllum hlutum eins og sumarfríum og veikindum, þannig það þarf að teikna vaktir og starfsumhverfi vel upp og tryggja að þetta gangi upp.“

Tækifærið er einstakt
Tilkoma þessa verkefnis er vegna þess að samfélagið kallaði eftir því, „það er mikið í húfi og þetta er hagsmunarmál Eyjamanna sem og annara. Samgöngur hafa áhrif á atvinnulíf og þróun, ferðaþjónustuna, íþróttafélögin og svo mætti lengi telja. Það er því mikilvægt að sýna þolinmæði, vanda undirbúningsvinnuna og hafa skipulagið gott. Það er ljóst að verkefni er stórt og það mun taka á að koma félaginu upp og forma rekstrarumhverfið en það verður ekki gert nema með góðu starfsfólki og jákvæðni í umhverfinu. Tækifærið er einstakt og er til þess fallið að auka hagvöxt í samfélaginu, bæta þjónustu og tryggja meira öryggi í samgöngum milli lands og Eyja.

Skipið kemur þegar veður og sjólag er hvað erfiðast
Ekki er vitað hvernig ferjan á eftir að reynast í Landeyjahöfn þó svo að hönnunin miði að því að geta siglt við erfiðari aðstæður en nú er hægt. „Það má því segja að það sé ánægjulegt að ferjan sé að koma til Eyja á þeim tíma ársins sem veður og sjólag er hvað erfiðast og hægt verður að reyna á skip og aðstæður í Landeyjum. Við fáum jafnframt að reyna á skipið í Þorlákshöfn. Þessar prófanir munu hjálpa okkur við langtímaáætlanir.“

Það verða breytingar
Aðspurður sagði Guðbjartur að öll vinnan sem þarf að klárast áður en ferjan kemur væri á áætlun, „við þurfum að vinna hratt á næstu mánuðum og tryggja það í öllu ferlinu að þetta sé eins og stefnt er að. Verkefnið er mjög skýrt og fókusinn minn er að ná fram tilsettum markmiðum. Ég einbeiti mér því eingöngu að þessu verkefni,“ sagði Guðbjartur. Það eru fjölmargir litlir hlutir sem þarf að hafa í huga og tryggja en Guðbjartur sagði að fyrirtækið mundi taka á sig nýja mynd hægt og rólega. „Það skiptir því máli að sýna þolinmæði en sjá um leið þessa góðu hluti gerast. Það verða breytingar, ég held að það sé óhjákvæmilegt, bæði hvað varðar tíðni siglinga en ekki síður í umhverfinu í landi þar sem starfsemi fer jafnframt fram.“