Tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant frá Vestmannaeyjum tilkynnti fyrr á þessu ári um útgáfu nýjustu plötu sinnar, „Across the Borders“ sem átti að koma út í dag, þann 9. Nóvember. Síðan þá hefur ýmislegt gerst og Júníus Meyvant hefur gert útgáfusamning við Bandaríska útgáfufyrirtækið Glassnote Records um útgáfu plötunnar í Bandaríkjunum og öðrum markaðssvæðum sem útgáfan leggur mikla áherslu á.

Júníus Meyvant, sem er á mála hjá íslenska útgáfufyrirtækinu Record Records, er mjög ánægður með þessa breytingu á Bandaríkjamarkaði þar sem hann telur sig hafa fundið gott heimili fyrir tónlistarsköpun sína. Record Records mun áfram sinna útgáfumálum Júníusar hér á Íslandi sem og allri Evrópu. Vegna samningsins við Glassnote var tekin sú erfiða ákvörðun að fresta útgáfu plötunnar til 25. Janúar 2019.

Þrátt fyrir seinkunina fáum við að heyra nýtt lag í dag en Júníus sendi frá sér enn einn slagarann af væntanlegri plötu sinni í dag og er það lagið ‘Let It Pass’.

Júníus Meyvant kemur fram á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni sem fer fram í Reykjavík þessa dagana og frumflytur þar efni af nýju plötunni í Gamla Bíói á laugardagskvöld kl. 22:40.

Hægt er að hlusta á nýja lagið hérna.