Er dýpkunarskipið farið uppúr? Er verið að dýpa í höfninni? Eru spurningar sem maður fær mjög reglulega enda skipta siglingar í Landeyjahöfn samfélagið í Eyjum mjög miklu máli. Á samfélagsmiðlum sér maður reglulega að fólk er duglegt að finna og rifja upp ýmislegt sem við erum jafnvel löngu búin að gleyma. Sú frétt sem ég rakst á og vakti áhuga minn á samfélagsmiðlinum Facebook er frá 14. september 2015 undir fyrirsögninni ,,Segir nær ógerlegt að halda dýpkun í Landeyjahöfn áfram‘‘. Það er hollt að lesa þessa frétt sem segir allt um aðkomuna og aðstæður við höfnina og mikilvægi þess að vera vel tækjum búinn. Í framhaldi af opnun tilboða 11. ágúst 2015 var samið við belgíska fyrirtækið Jan de Nul. Það leið ekki langur tími að dæluskipið Taccola var mætt á svæðið. Það er því rétt að rifja upp aðra frétt frá 3. október 2015 undir fyrirsögninni ,,Milljón rúmmetrum af sandi dælt á ári‘‘ en þar segir ,,Verkinu miðar vel áfram þó að nokkurra daga töf hafi orðið vegna veðurs og dælingar. Er skipinu ætlað að dæla upp um 300 þúsund rúmmetrum og náðist á þremur dögum að ná upp um 100 þús. rúmm.‘‘ einnig kemur fram að Björgun hafi og muni dýpka innan hafnar þar til minna skip frá Jan de Nul komi á svæðið og segir orðrétt: ,,Fram að því halda skip frá Björgun áfram dælingu þar. Þau hafa frá lok apríl sl. dælt um 400 þúsund rúmmetrum úr höfninni. Næsta vor eiga Belgarnir að dæla um 300 þúsund rúmmetrum þannig að á einu ári hefur 1 milljón rúmmetra af sandi komið upp úr innsiglingunni og höfninni.‘‘. Við sem búum í Eyjum þekkjum svo að í framhaldi kom skipið Galilei 2000 sem hefur þjónustað samfélagið í Eyjum vel þó stundum hafi íbúar haft áhyggjur að ekki væri byrjað að dýpka nógu snemma. Hér má finna yfirlit yfir nokkur dýpkunarskip sem hafa komið að dýpkun Landeyjahafnar:

Á bæjarstjórnarfundi sl. fimmtudag kom bæjarstjórn sér saman um bókun er snýr að nýju útboði Vegagerðarinnar en fyrirhugað er að semja við lægstbjóðanda sem var Björgun.

,,Bæjarstjórn ítrekar fyrri bókanir sínar og tekur undir bókanir bæjarráðs af fyrirhuguðum dýpkunarframkvæmdum í Landeyjahöfn. Tíminn sem tekur að opna höfnina hverju sinni skiptir samfélagið afar miklu máli. Þess vegna skipta afköst dýpkunarbúnaðar miklu máli þann tíma sem færi gefst til dýpkunar. Bæjarstjórn telur að forsendur útboðs hafi engan veginn verið nægjanlega kröfuharðar af hálfu Vegagerðarinnar hvað þetta atriði varðar. Bæjarstjórn hvetur þingmenn kjördæmisins til að beita sér í málinu og tryggja að samið verði við aðila sem býr yfir nægilega öflugum tækjakosti til að tryggja þær þarfir sem samgöngur við Vestmannaeyjar krefjast.‘‘

Ég er mjög hugsi hvort hægt sé að tryggja nægt dýpi og Landeyjahöfn verði heilsárshöfn þegar útboð taka ekki betur á þáttum eins og afkastagetu. Dagsektir gagnast íbúum Vestmannaeyja lítið þegar Landeyjahöfn er lokuð og ,,ógerlegt að halda dýpkun áfram‘‘ eins og það var orðað. Við höfum séð að afkastageta er ráðandi við opnun hafnarinnar og þegar aðstæður leyfa yfir erfiðasta tíma ársins. Mér skilst að Galilei 2000 sé á förum frá Eyjum á næstu dögum og vil nýta tækifærið og þakka belgíska fyrirtækinu Jan de Nul fyrir þjónustuna síðustu ár. Í lokin vil ég rifja upp síðustu tvær setningar í yfirlýsingu sem Sigurður Áss Grétarson og Andrés Þorsteinn Sigurðsson birtu í Morgunblaðinu 2. október 2015:

,,Landeyjahöfn verður heilsárshöfn þegar ný, hentug ferja kemur. Að tryggja nægt dýpi fyrir nýrri ferju verður erfitt en viðráðanlegt.“

Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja.